Erlent

Tugir slösuðust í mótmælunum í Katalóníu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá mótmælunum í gær.
Frá mótmælunum í gær. vísir/epa
Talið er að að minnsta kosti 89 manns hafi slasast í fjölmennum mótmælum í Katalóníu á Spáni í gær þar sem þúsundir mótmæltu því að Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti heimastjórnar héraðsins, hefði verið handtekinn í Þýskalandi. Mótmælendurnir slösuðust í átökum við lögreglu og þá voru fjórir handteknir.

Puigdemont, sem meðal annars er ákærður á Spáni fyrir landráð, var handtekinn í Þýskalandi á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar sem gefin var út á hendur honum á föstudag.

Hann var handtekinn á leið sinni frá Danmörku til Belgíu en þar hefur hann verið í sjálfskipaðri útlegð síðan í október eftir að ríkisstjórn Spánar vék honum úr starfi. Það var gert eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í Katalóníu sem ríkisstjórn Spánar segir hafa verið ólöglega. Héraðsstjórn Katalóníu var leyst upp og Madríd tók yfir stjórn héraðsins.

Puigdemont mun koma fyrir dómara í Þýskalandi síðar í dag. Hann á yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsisvist fyrir þau meintu brot sem hann er ákærður fyrir á Spáni. Níu aðrir leiðtogar sjálfstæðissina Katalóníu sitja í fangelsi. Fimm aðrir eru í útlegð. Á föstudaginn úrskurðaði Hæstiréttur Spánar að ákæra ætti 25 leiðtoga héraðsins fyrir landráð, fjárdrátt og að hlýða ekki skipunum ríkisins.


Tengdar fréttir

Þúsundir mótmæla handtöku Puigdemont

Um er að ræða sjálfstæðissinna sem vilja sjálfstæði Katalóníu frá Spáni og heita þau því að handtaka Puigdemont, sem var forseti heimastjórnar héraðsins, muni ekki koma í veg fyrir frelsi héraðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×