Erlent

Ætla að herða reglur varðandi pólitískar auglýsingar

Samúel Karl Ólason skrifar
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook.
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook. Vísir/AFP

Facebook ætlar að herða reglur varðandi pólitískar auglýsingar á samfélagsmiðlum fyrirtækisins. Allar slíkar auglýsingar verða í framtíðinni merktar þeim aðila sem greiðir fyrir þær og mun fyrirtækið staðfesta einkenni og staðsetningu viðkomandi aðila. Breytingum þessum er ætlað að auka gagnsæi og koma í veg fyrir að miðlar Facebook séu notaðir af leynilegum aðilum til að hafa áhrif á kosningar.

Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, segir að eftir að starfsmenn fyrirtækisins hafi komist á snoðir um afskipti rússneskra aðila af forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2016, hafi fyrirtækið beitt nýjum tólum í kosningum í Frakklandi, Þýskalandi og Alabama í fyrra sem eytt hafi tugum þúsunda falskra aðganga sem notaðir voru til að dreifa áróðri.

Hann sagði einnig að fyrr í vikunni hefðu starfsmenn fyrirtækisins eytt stóru neti rússneskra falsaðganga.

Starfsmenn rússneska fyrirtækisins Internet Research Agency, sem iðulega kallast „Tröllaverksmiðja Rússlands“ stýrðu í aðdraganda kosninganna 2016 Facebooksíðum með falsreikningum sem litu út fyrir að vera frá Bandaríkjunum. Fylgjendur þeirra voru allt að nokkur hundruð þúsund.

Sjá einnig: Upplýsingahernaður háður úr „Tröllaverksmiðju“ í Pétursborg

Til að framfylgja nýju reglunum ætlar fyrirtækið að ráða „þúsundir“ nýrra starfsmanna og stefnt er að því að nýju reglurnar taki á heimsvísu á næstu mánuðum.

Sömuleiðis ætlar fyrirtækið að staðfesta einkenni stjórnendur stórra Facebooksíðna svo ekki verði hægt að nota falsaðganga til að stýra slíkum síðum.

„Breytingar þessar munu ekki koma í veg fyrir að fólk reyni að svindla á kerfinu. Þær munu hins vegar gera aðilum mun erfiðara að gera það sem Rússarnir gerðu í kosningunum 2016 og að nota falsaðganga og síður til að keyra auglýsingar,“ skrifaði Zuckerberg á Facebook í kvöld.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.