Erlent

Lögreglan leitar að tilefni árásarinnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan segir rannsókn enn standa yfir og að mörgum spurningum sé ósvarað.
Lögreglan segir rannsókn enn standa yfir og að mörgum spurningum sé ósvarað. Vísir/AFP
Lögreglan í Þýskalandi rannsakar nú af hverju hinn 48 ára gamli Jens R., ók VW smávagni sínum inn í hóp fólks sem sat fyrir utan veitingastaðinn Grosser Kiepenkerl í Münster í dag. Tveir létu lífið og minnst tuttugu slösuðust, þar af nokkrir alvarlega. Jens R. svipti sig svo lífi með skammbyssu en riffill fannst einnig á heimili hans.

Samkvæmt heimildum Spiegel hafði Jens R. aldrei verið undir eftirliti lögreglu og var hann ekki á skrá yfir öfgamenn. Yfirvöld segja ekkert útlit fyrir að hann hafi tengst íslamistum á nokkurn hátt. Fregnir hafa borist af því að hann hafi verið hælisleitandi en það er ekki rétt samkvæmt yfirvöldum Þýskalands. Hann var þýskur ríkisborgari.



Hann er sagður hafa átt við geðræn vandamál að stríða og á hann að hafa áður reynt að svipta sig lífi. Nágrannar Jens R. segja hann hafa verið undarlegan og árásargjarnan.

Lögreglan segir rannsókn enn standa yfir og að mörgum spurningum sé ósvarað. Sú stærsta sé hvað hafi leitt til þessarar hræðilegu árásar. Ljóst sé að þetta hafi ekki verið slys.

Sérsveit lögreglunnar framkvæmdi leit í íbúð árásarmannsins nú í kvöld. Öðrum íbúum hússins var gert að yfirgefa íbúðir sínar en hár hvellur heyrðist frá íbúðinni. Lögreglan segir að grunsamlegur hlutur hafi verið sprengdur í loft upp áður en rannsakendum var hleypt þar inn.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×