Enski boltinn

Tapið gegn United kostaði City þrjár vikur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Vincent Kompany tók við Englandsbikarnum 2014 en síðan hefur Manchester borg ekki eignast Englandsmeistara.
Vincent Kompany tók við Englandsbikarnum 2014 en síðan hefur Manchester borg ekki eignast Englandsmeistara.
Manchester City mistókst að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn í gær þegar liðið tapaði fyrir erkifjendunum í Manchester United á heimavelli.

Hefði liðið farið með sigur væri titillinn þeirra og City hefði þar með orðið fljótasta liðið í sögu úrvalsdeildarinnar til þess að vinna bikarinn eftirsótta.

Manchester United á það met. United er eina liðið sem hefur unnið deildina þegar fimm umferðir eru eftir. Það gerði United árið 2001 með 4-2 sigri á Coventry City.

City getur hins vegar jafnað met United um næstu helgi. Þá fer City á Wembley og mætir Tottenham laugardaginn 14. apríl. Sigur í þeim leik er þó ekki nóg til þess að þeir bláklæddu geti fagnað þriðja titlinum á síðustu sex árum.

Aftur verður það í höndum United að stöðva titilfögnuð City. Til þess að þeir bláklæddu verði meistarar þarf City að vinna Tottenham og United þarf að tapa fyrir botnliði West Bromwich Albion. WBA hefur ekki unnið United síðan í mars 2016 og hefur þar fyrir utan aðeins unnið þrjá leiki á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni. Því verður að teljast ólíklegt að City nái að fagna tilinum um komandi helgi

Ef bæði United og City vinna alla þá leiki sem liðin eiga eftir í deildinni mun City geta fagnað Englandsmeistaratitlinum með sigri á West Ham 29. apríl. Tapið fyrir United í gær kostaði því City að öllum líkindum þrjár vikur í bið eftir titlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×