Enski boltinn

Aldrei meira að gera hjá De Gea en á þessu tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur verið nóg að gera hjá David De Gea í vetur.
Það hefur verið nóg að gera hjá David De Gea í vetur. Vísir/Getty
Spænski markvörðurinn David De Gea hefur átt frábært tímabil með Manchester United og á mikinn þátt í því að United-liðið er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar og á enn tölfræðilega möguleika á að vinna enska meistaratitilinn.

Þetta er sjöunda tímabil David De Gea á Old Trafford en tölfræðin sýnir að það hefur aldrei verið meira að gera hjá honum en á þessari leiktíð.

David de Gea kom til Manchester United frá Atlético Madrid árið 2011 og náði að verja 102 skot á sínu fyrsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni.

Það er enn met hjá kappanum en ekki mikið lengur. Eftir frábæra frammistöðu í sigrinum á toppliði Manchester City um helgina hefur spænski markvörðurinn nú varið 101 skot á þessu tímabili.

Hann fær því sex leiki til að verja tvö skot til viðbótar og bæta persónulega metið sitt.





Tölfræðin sýnir svart á hvítu að De Gea hafi aldrei áður haft eins mikið að gera í marki Manchester United og á þessu tímabili. Hann hefur þegar fengið á sig 126 skot og De Gea hefur náð að verja 80 prósent þeirra.

De Gea er að fá á sig 3,9 skot í leik sem er það mesta á ferlinum. Hann hefur mest fengið á sig 140 skot á einu tímabili (2013-14) og þarf því „aðeins“ að fá sig 15 skot í síðustu sex leikjum til að slá það met sitt.

De Gea hefur aldrei áður náð að verja yfir 80 prósent skota sem hafa komið á honum og þá er hann að fá á sig mark á 115,2 mínútna fresti sem væri líka persónulegt met hjá honum.

Best áður hjá honum var 77,9 prósent markvarsla á fyrsta tímabili hans (2011-12) og svo mark á 108,6 mínútna fresti á síðustu leiktíð.

De Gea hefur þegar bætt metið sitt yfir að halda marki sínu hreinu en því hefur kappinn náð 16 sinnum í 32 leikjum í vetur eða nákvæmlega í öðrum hverjum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×