Erlent

Uppstokkun steytir á skeri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump segist ekki eiga í neinum vandræðum með að finna lögmenn sem vilja starfa fyrir sig.
Donald Trump segist ekki eiga í neinum vandræðum með að finna lögmenn sem vilja starfa fyrir sig. Vísir/Getty
Svo virðist sem Bandaríkjaforsetinn Donald Trump muni ekki ráða til sín lögfræðinganna tvo sem tilkynnt var um í síðustu viku. Trump hafði hugsað sér að stokka upp í lögfræðiliði sínu eftir að John Dowd, aðallögmaður forsetans í málefnum sem tengjast rannsókn sérstaks saksóknara á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum, hætti störfum.

Við hlutverki hans átti að taka fyrrum saksóknarinn Joe diGenova, staðfastur stuðningsmaður forsetans sem telur að leynilegur hópur FBI-fulltrúa hafi búið til Rússarannsóknina til að koma í veg fyrir að Trump yrði forseti. Eiginkona hans, Victoria Toensing, átti jafnframt að hefja störf fyrir Hvíta húsið.

Nú er hins vegar komið babb í bátinn. Í yfirlýsingu frá einkalögmanni forsetans, Jay Sekulow, kemur fram að „hagsmunaárekstrar“ (e. conflict) standi í veg fyrir ráðningu hjónanna. „Forsetanum þykir miður að hagsmunaárekstrar komi í veg fyrir að Joe diGenova og Victoria Toensing geti gengið í Rússarannsóknarlið forsetans,“ segir í yfirlýsingunni. Þau geti þó aðstoðað hann við önnur lagaleg úrlausnarefni, bara ekki eitthvað sem tengist rannsókn sérstaka saksóknarans.

Hverjir árekstrarnir eru liggur ekki fyrir á þessari stundu. Lögmannsstofa hjónanna, diGenova & Toensing, er þó talin vinna fyrir aðra sem blandast hafa inn í rannsóknina á íhlutun Rússa í forsetakosningunum. Það kunni að valda fyrrnefndum hagsmunaárekstrum.

Donald Trump tjáði sig undir rós um málið á Twitter í gær þar sem hann sagði að hann ætti ekki í neinum vandræðum með að finna lögmenn sem vildu taka mál hans að sér.

Til stóð að ráða hjónin sem fyrr segir eftir að John Dowd hætti störfum fyrir forsetann. Er hann sagður hafa gefist upp á starfinu því forsetinn hafi ítrekað hunsað ráðleggingar hans.

Aðrar heimildir hermdu að forsetinn hafi misst trúna á hann. Undir forystu Dowd stakk lögfræðingalið Trump upp á því að hann myndi aðstoða rannsóknarnefnd Roberts Mueller við störf sín.

Í ljósi þessara nýjustu vendinga er ekki vitað hver mun að endingu taka við starfi Johns Dowd.


Tengdar fréttir

Lögmaður Trump hættur

John Dowd, aðallögmaður Donald Trump forseta Bandaríkjanna, í málefnum sem tengjast rannsókn sérstaks saksóknara á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum er hættur störfum fyrir forsetann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×