Enski boltinn

Aguero ræðir endalok sín hjá Man City við argentínska fjölmiðla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero.
Sergio Aguero. Vísir/Getty
Argentínski landsliðsframherjinn vill enda ferilinn í Argentínu en ætlar þó að spila tvö tímabil í viðbót með Manchester City.

Samningur Sergio Aguero og Manchester City rennur út sumarið 2020 og það lítur út fyrir að hann verði ekki endurnýjaður ef marka má nýtt viðtal við framherjann.

Aguero er nú staddur í verkefni með argentínska landsliðinu í fótbolta og þar ítrekaði hann vilja sinn til að spila síðustu árin sín í Argentínu. Sky Sports segir frá.

Sergio Aguero er 29 ára gamall og verðu því aðeins 31 árs þegar samningurinn rennur út. Þá vill hann yfirgefa England og fara til Independiente. Aguero lék með argentínska liðinu til ársins 2006 þegar hann fór til Atlético Madrid þar sem hann var síðan í fimm ár eða til 2011.

Sergio Aguero hefur spilað í sjö tímabil með Manchester City, er orðinn markahæsti leikmaður félagsins frá upphafi og hann er á góðri leið með að verða enskur meistari í þriðja sinn.

„Ég hef alltaf sagt að ég vilji fara aftur til Independiente þegar samningur minn við City rennur út og það er árið 2020. Ég er samt ekki að hugsa um það núna. Ég einbeiti mér að því að enda tímabilið vel og komast á HM,“ sagði Sergio Aguero við Fox Sports í Argentínu.

Sergio Aguero og félagar í argentínska landsliðinu mæta spænska landsliðinu í vináttulandsleik annað kvöld en sá leikur fer fram á Wanda Metropolitano leikvanginum í Madrid sem er heimavöllur Atletico.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×