Erlent

Kommúnistaflokkurinn leggur línurnar fyrir lengri valdatíð Xi Jinping

Þórdís Valsdóttir skrifar
Xi Jinping tók við embætti forseta Kína árið 2013.
Xi Jinping tók við embætti forseta Kína árið 2013. Vísir/AFP
Kínverski kommúnistaflokkurinn hefur lagt línurnar að því að Xi Jinping, þjóðhöfðingi Kína, geti haldið embætti sínu um óákveðinn tíma. Miðstjórn flokksins hefur lagt fram tillögu þess efnis að ákvæði stjórnarskrár alþýðulýðveldisins, sem kveður á um að forseti geti einungis gegnt embætti í tvö fimm ára kjörtímabil, verði breytt. BBC greinir frá þessu.

Xi Jinping, sem er 64 ára gamall, hefur gegnt embætti forseta frá árinu 2013 og er því að klára fyrsta kjörtímabil sitt. Hann mun vera formlega kosinn til þess að gegna embættinu í annað kjörtímabil þann 5. mars næstkomandi.

Samkvæmt ákvæði stjórnarskrárinnar, eins og það er í dag, yrði hann að að láta af embætti árið 2023. Getgátur hafa verið um það að Xi vilji halda embætti sínu lengur en árið 2023.

Miðstjórn kommúnistaflokksins hefur ekki gefið nákvæmar upplýsingar um tillöguna en fram hefur komið að tillagan gildi líka um varaforseta Kína.

 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.