Enski boltinn

Messan: Strákurinn hjá Man United sem elti Hazard út um allan völl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir í Messunni tóku fyrir hinn unga Scott McTominay og frammistöðu hans í sigri Manchester United á Chelsea í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í gær.

Scott McTominay er 21 árs gamall og hefur verið hjá United síðan að hann var fimm ára. Jose Mourinho hefur gefið honum tækifærið í aðalliði Manchester United í vetur.

„Hér sjáum við að Manchester United lætur Eden Hazard ekki í friði,“ sagði Ríkharð Guðnason þegar Messan hóf umfjöllun sína um unga Englendinginn.

„Hann eltir hann út um allan völl. McTominay var að spila inn á miðjunni en ef Hazard fór yfir til vinstri eða hægri þá elti hann. Það lá við að fylgdi honum af velli þegar Hazard var tekinn útaf. Við getum sagt að hann hafi leyst þetta hlutverk vel að hendi í leiknum,“ sagði Reynir Leósson.

„Hann náði að halda Hazard niðri og það var aldrei langt á milli þeira allan leikinn. Hann var ekki mikið að einbeita sér að öðrum leikmönnum Chelsea heldur var alltaf að leita að sínum manni,“ sagði Reynir.

Ríkharð Guðnason sýndi síðan mark Chelsea í leiknum þar sem McTominay missti af Belganum og Eden Hazard lagði upp mark fyrir Willian.

„Ætli McTominay sé að pæla of mikið í því hvar Eden Hazard sé. Nú sér hann að Eden Hazard er kominn með boltann og þá gleymir hann Willian,“ sagði Ríkharð.

Það má sjá alla umfjöllunina um Scott McTominay og leik Manchester United og Chelsea í spilaranum hér fyrir ofan.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×