Enski boltinn

Messan: Þetta þarf Liverpool að gera til að vinna Englandsmeistaratitilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool er fimmtán stigum á eftir Manchester City (1. sæti) og tveimur stigum á eftir Manchester United (2. sæti). Hvað þarf að gerast til að Liverpool geti unnið enska meistaratitilinn sem hefur ekki komið á Anfield í 28 ár. Strákarnir í Messunni hafa sína skoðun á því.

„Hvað þarf Liverpool að gera til þess að geta barist um Englandsmeistaratitilinn? Hvað vantar?,“ spurði Ríkharð Guðnason þegar hann hóf umræðuna um framtíð Liverpool-liðsins í Messunni.

„Ég hef einhvern tímann sagt það að mér fannst þeim vanta miðvörð, markvörð og kannski einn öflugan varnartengilið. Þeir eru búnir að fá sér einn miðvörð en það er ekkert rosalega mikið sem vantar. Það er klárlega markvörður sem vantar til þess að þeir geti tekið næsta skref,“ sagði Reynir Leósson og nefnir til Manchester City.

„Það er það sem Pep Guardiola gerði hjá City. Hann var ekki með nógu góðan markvörð og fór bara og keypti sér einn betri,“ sagði Reynir og er þá að tala um Brasilíumaninn Ederson sem kom frá Benfica.

„Það er ekki mikið sem vantar þegar liðið hefur verið að spila eins vel og það hefur verið að gera á tiltölulega löngu tímabili,“ sagði Reynir.

„Það sem þeir þurfa að gera er að klára þetta tímabil af krafti og komast í Meistaradeildina sem skiptir gríðarlega miklu máli. Þeir þurfa að reyna að byggja ofan á það. Þeim veitti ekki að því að ná sér í annan miðvörð, svona heimsklassa miðvörð, því þú þarft tvo til þrjá góða miðverði til að geta farið að berjast um enska meistaratitilinn. Og svo alvöru markmann. Þar er alltaf grunnurinn því þeir þurfa styrkja sig þar en eru alveg nógu góðir fram á við og munu sjálfsagt verða þar áfram,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson.

Það má sjá þessa umfjöllun sem og umræðu um möguleika Liverpool á að vinna Meistaradeildina í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×