Enski boltinn

Pochettino vorkennir „bestu dómurum Evrópu“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Við fengum mikið að sjá nærmynd af Paul Tierney hlusta á rödd í eyranu í gærkvöld
Við fengum mikið að sjá nærmynd af Paul Tierney hlusta á rödd í eyranu í gærkvöld vísir/getty
Tottenham vann öruggan sigur á C-deildarliði Rochdale í endurteknum leik í 16-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í gærkvöld. Myndbandsdómgæslukerfið (VAR) var í stóru hlutverki í leiknum.

„Þetta var leikur sem skilur margt eftir sig. Hann var mjög flókinn útaf þessu nýja kerfi, það var erfitt að halda athyglinni við leikinn,“ sagði Mauricio Pochettino.

Mark Tottenham var dæmt af snemma leiks og urðu miklar tafir í kringum vítaspyrnudóm í fyrri hálfleiknum. Fyrst tók það langan tíma að dæma vítaspyrnuna og svo var mark Son Heung-min úr spyrnunni dæmt af eftir að hann stoppaði í tilhlaupinu. Öll ringulreiðin í kringum dómgæsluna tók hátt í tíu mínútur.

„Ég held við séum með bestu dómara í Evrópu, ef ekki í heiminum. En ég veit ekki hvort þetta kerfi mun hjálpa þeim eða bara valda misskilningi. Fótboltinn er leikur tilfinninga og ef við drepum tilfinninguna þá breytist leikurinn.“

„Þetta er erfitt fyrir dómarann, ég vorkenni honum. En ég vorkenni stuðningsmönnunum meira því það er svo erfitt að skilja hvað er í gangi,“ sagði Pochettino.

Kollegi hans hjá Rochdale, Keith Hill, tók undir það að þetta sé of flókið og það þurfi að nota myndefnið betur svo allir; dómarar, leikmenn og stuðningsmenn, skilji hvað sé að gerast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×