Erlent

Tengdadóttir Donalds Trump flutt á sjúkrahús eftir að hafa borist hvítt duft í pósti

Birgir Olgeirsson skrifar
Vanessa Trump ásamt Donald Trump yngri
Vanessa Trump ásamt Donald Trump yngri Vísir/Getty
Vanessa Trump, tengdadóttir Donalds Trump forseta Bandaríkjanna, var flutt á sjúkrahús fyrr í dag eftir að hafa fengið hvítt duft í pósti. Lögreglan í New York greindi frá þessu í yfirlýsingu en þar segir að Vanessa hafi fundið fyrir ógleði eftir að hafa verið í nálægð við duftið. Komið hefur í ljós að duftið reyndist meinlaust.

Vanessa er eiginkona Donald Trump yngri en á fréttaveita Reuters greinir frá málinu á vef sínum. Þar kemur fram að yfirvöld í Bandaríkjunum hafi verið á varðbergi vegna póstsendinga sem innihalda hvítt duft frá árinu 2001. Það ár voru send bréf á fjölmiðla og þingmenn sem innihéldu miltisbrand og létust fimm vegna þeirra voðaverka.

Reuters segir pakkann hafa verið stílaðan á Donald Trump yngri en þrír af heimili þeirra hjóna á Manhattan  voru fluttir á sjúkrahús vegna málsins.

Donald Trump yngri er elsti sonur Donalds Trump en sá yngri rataði í sviðsljós fjölmiðla vegna funda sem hann átti með Rússum árið 2016 sem buðu framboði föður hans upplýsingar sem áttu að koma forsetaframboði Hillary Clinton illa.

Árið 2016 var hvítt duft sent með pósti á heimili Eric Trump, einum af sonum Donalds Trump, en það reyndist meinlaust.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 21:15








Fleiri fréttir

Sjá meira


×