Erlent

Leið­togi stjórnar­and­stöðunnar í Simba­b­ve látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Morgan Tsvangirai var forsætisráðherra Simbabve á árunum 2009 til 2013.
Morgan Tsvangirai var forsætisráðherra Simbabve á árunum 2009 til 2013. Vísir/AFP
Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Simbabve til margra ára, er látinn, 65 ára að aldri. Talsmaður MDC-flokksins segir að hann hafi andast á sjúkrahúsi í Suður-Afríku í gærkvöldi eftir baráttu við ristilkrabbamein.

Stjórnmálabarátta Tsvangirai einkenndist af stöðugum átökum við forsetann fyrrverandi, Robert Mugabe og bárust reglulega fréttir af því að Tsvangirai hafi verið fangelsaður og beittur ofbeldi af mönnum Mugabe.

Elias Mudzuri, varaformaður MDC, sagði á Twitter í gær að flokkurinn hafi misst sinn helsta leiðtoga og baráttumann fyrir lýðræði í landinu.

Tsvangirai stofnaði MDC (Hreyfingu fyrir lýðræðisbreytingum) árið 2000 og gerði ítrekaðar tilraunir til að koma Mugabe frá völdum, en án árangurs.

Í kosningunum 2008 hlaut Tsvangirai flest atkvæði í fyrri umferð kosninganna en fyrir síðari umferðina réðust sveitir Mugabe forseta í herferð gegn stuðningsmönnum Tsvangirai sem fékk hann til að draga framboð sitt til baka.

Mubage var þá lýstur sigurvegari en eftir mikinn þrýsting erlendis frá var Tsvangirai gerður að forsætisráðherra landsins. Mugabe sat þó áfram sem forseti.

Tsvangirai lét af störfum forsætisráðherra árið 2013.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.