Erlent

Ekkill þingkonunnar Jo Cox segir af sér vegna ásakana um kynferðislega áreitni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Brendan Cox á minningarathöfn um eiginkonu sína árið 2016.
Brendan Cox á minningarathöfn um eiginkonu sína árið 2016. Vísir/AFP
Brendan Cox, ekkill bresku þingkonunnar Jo Cox sem var myrt af þjóðernissinnuðum öfgamanni árið 2016, hefur sagt af sér úr stjórnum tveggja góðgerðarsamtaka. Cox steig til hliðar eftir að ásakanir um kynferðislega áreitni, sem bornar voru á hendur honum árið 2015, voru aftur dregnar fram í dagsljósið.

Brendan tilkynnti um afsögn sína á Twitter-reikningi sínum í gær. Í færslunum baðst hann afsökunar á gjörðum sínum, tók ábyrgð á þeim og viðurkenndi að hann hefði hagað sér á óviðeigandi hátt.

Um er að ræða stöður sem Brendan gegndi hjá bresku samtökunum More in Common annars vegar og The Jo Cox Foundation hins vegar en þau síðarnefndu voru stofnuð í minningu Jo eftir að hún var myrt.

Tvær konur stigu fram

Ásakanirnar sem urðu Brendan að falli komu fram árið 2015. Samstarfskona hans hjá þriðju góðgerðarsamtökunum, Save the Children, sakaði hann um kynferðislega áreitni en Brendan sagði af sér stuttu eftir að málið var tekið til rannsóknar innan samtakanna. Þá var hann einnig sakaður um að hafa beitt aðra konu kynferðisofbeldi á veitingastað á Harvard-torgi, sem stendur á lóð hins bandaríska Harvard-háskóla. 

Breska dagblaðið The Mail on Sunday var fyrst fjölmiðla til að draga ásakanirnar aftur fram í dagsljósið.

Kim Leadbeater, systir Jo Cox, birti yfirlýsingu á heimasíðu Jo Cox-minningarsjóðsins, The Jo Cox Foundation, í dag. Í yfirlýsingunni kom fram að fjölskylda Jo fagni því að Brendan taki ábyrgð á gjörðum sínum og að hann njóti stuðnings og virðingar fjölskyldumeðlimanna.

Brendan hafði unnið ötullega að því að halda minningu eiginkonu sinnar, einnar helstu vonarstjörnu breska Verkamannaflokksins, á lofti eftir að hún var myrt í júní 2016 í enska bænum Birstall. Morðingi Jo Cox, þjóðernissinnaður öfgamaður, var dæmdur í lífstíðarfangelsi í nóvember sama ár.


Tengdar fréttir

Fagna lífi þingkonunnar Jo Cox

Ár er liðið frá því breska þingkonan Jo Cox var myrt. Fjölskylda hennar og vinir hvetja fólk til þess að standa að viðburðum alla helgina í þeim tilgangi að fagna lífi móðurinnar og þingkonu breska Verkamannaflokksins Jo Cox.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.