Erlent

Fjölmiðlabanni Kenyatta aflétt

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Raila Odinga, sem titlar sjálfan sig "forseta fólksins“.
Raila Odinga, sem titlar sjálfan sig "forseta fólksins“. vísir/afp
Hæstiréttur Keníu aflétti í gær útsendingarbanni sem ríkisstjórn Uhuru Kenyatta forseta lagði á fréttastöðvarnar KTN, NTV og Citizen TV vegna fyrirhugaðra útsendinga frá táknrænni en óopinberri innsetningarathöfn forsetaframbjóðandans og stjórnarandstæðingsins Raila Odinga.

Úrskurður hæstaréttar nær þó einungis til tveggja vikna á meðan málið fer fyrir rétt.

Samkvæmt blaðamanni BBC í höfuðborginni Naíróbí bendir ekkert til þess að ríkisstjórnin ætli að framfylgja þessari ákvörðun hæstaréttar og voru miðlarnir ekki í loftinu þegar þessi frétt var skrifuð.

Innanríkisráðuneytið sagði í tilkynningu fyrr í vikunni að athöfnin hefði verið tilraun til að grafa undan ríkisstjórninni og að með henni hefðu stjórnarandstæðingar lagt línurnar að byltingu sem gæti dregið þúsundir Keníumanna til dauða.

Odinga vildi með athöfninni mótmæla Kenyatta forseta en sá fyrrnefndi sniðgekk forsetakosningar októbermánaðar eftir að hafa tapað fyrir forsetanum í ógildum forsetakosningum ágústmánaðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×