Erlent

Fílabeinseftirlitsmaður myrtur í Kenía

Kjartan Kjartansson skrifar
Fílabein sem voru gerð upptæk í Hong Kong í fyrra. Bradley-Martin helgaði líf sitt baráttu gegn ólöglegum viðskiptum með þau.
Fílabein sem voru gerð upptæk í Hong Kong í fyrra. Bradley-Martin helgaði líf sitt baráttu gegn ólöglegum viðskiptum með þau. Vísir/AFP
Esmond Bradley-Martin, einn helsti rannsakandi ólöglegra viðskipta með fílabein og nashyrningahorn í heiminum, var stunginn til bana á heimili sínu í Kenía í gær. Hann var þekktur fyrir að hætta lífi sínu til að afla upplýsinga um svartan markað með hluta úr dýrum í útrýmingarhættu.

Eiginkona Bradley-Martin, sem var 75 ára gamall, fann lík hans á heimili þeirra í höfuðborginni Naíróbí í gær. Hann hafði verið stunginn í hálsinn en lögreglu grunar að um misheppnaða ránstilraun hafi verið að ræða. Bradley-Martin var Bandaríkjamaður en flutti til Kenía á 8. áratug síðustu aldar þegar fílar voru drepnir þar í stórum stíl fyrir bein þeirra.

Þá var Bradley-Martin sérstakur sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna fyrir vernd nashyrninga á sínum tíma. Dulbjó hann sig sem kaupandi til að taka myndir og skrá upplýsingar um svartan markað með fílabein og nashyrningshorn í Kína, Víetnam og Laos.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að það hafi meðal annars verið fyrir tilstilli starfa Bradley-Martin sem kínversk stjórnvöld létu undan þrýstingi og bönnuðu viðskipti með nashyrningshorn á 10. áratugnum. Bann við sölu á fílabeini tók gildi þar í ár.

Hann var nýkominn úr rannsóknarleiðangri í Búrma og vann að skýrslu um niðurstöður sínar þegar hann var drepinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×