Erlent

Tæplega hundrað manns létust í árásinni í Kabúl

Kjartan Kjartansson skrifar
Öryggissveitir rannsaka vettvang sprengjuárásarinnar í Kabúl í dag.
Öryggissveitir rannsaka vettvang sprengjuárásarinnar í Kabúl í dag. Vísir/AFP
Nú eru 95 manns sagðir látnir eftir sjálfsmorðssprengjuárás í sendiráðshverfi í Kabúl, höfuðborg Afganistans fyrr í dag. Hátt á annað hundrað manns eru sárir og búast yfirvöld við því að tala látinna eigi enn eftir að hækka.

Sprengjan var falin í sjúkrabíl sem var ekið upp að eftirlitsstöð lögreglu nærri sendiráðum erlendra ríkja í borginni. Gatan þar sem árásarmennirnir sprengdu sig og bílinn í loft upp var aðeins opin opinberum starfsmönnum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Sprengjan sprakk um kl. 12:15 að staðartíma og var gatan þá full af vegfarendum. Talibanar hafa lýst yfir ábyrgðinni á árásinni sem er sú blóðugasta í marga mánuði. Hrina sprengjuárása um allt landið kostaði 176 manns lífið í október og í maí létust 150 í sjálfsmorðsárás í Kabúl.

Alþjóðlegi Rauði krossinn segir það „skelfilegt“ að árásarmennirnir í dag hafi notað sjúkrabíl. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), fordæmdi árásina í tísti. Hét hann stuðningi NATO við Afganistan í baráttunni gegn hryðjuverkum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×