Erlent

Niinistö með sögulegan sigur

Atli Ísleifsson skrifar
Sauli Niinistö hlaut um 62 prósent atkvæða.
Sauli Niinistö hlaut um 62 prósent atkvæða. Vísir/AFP
Sauli Niinistö vann sögulegan sigur í finnsku forsetakosningunum sem fram fóru í gær.

Forsetinn hlaut um 62 prósent atkvæða og er þetta í fyrsta sinn sem ekki þarf að grípa til annarrar umferðar í finnsku forsetakosningunum frá því að núgildandi kosningakerfi var tekið upp árið 1994.

Niinistö tók við embættinu árið 2012 og er nú ljóst að hann mun gegna embættinu í sex ár til viðbótar.

„Ég er bæði hissa og þakklátur fyrir þennan mikla stuðning,“ sagði Niinistö þegar ljóst var hvert stefndi.

Minni þátttaka

Helsti keppinautur forsetans, Pekka Haavisto, frambjóðandi Græningja, hlaut 12,8 prósent atkvæða.

Kosningaþátttakan var 69,9 prósent, nokkru minni en í síðustu forsetakosningum þar sem þátttakan var 72,8 prósent. Athygli vakti að 36,1 prósent kosningabærra Finna greiddu atkvæði utan kjörfundar.

Eiga von á sínu fyrsta barni saman

Í forsetatíð sinni hefur Niinistö unnið að því að koma á jafnvægi í samskiptum Finna við útlönd. Þannig hefur Niinistö bætt samskiptin við nágrannann í austri og vakti það athygli þegar hann og Vladimír Pútín Rússlandsforseti spiluðu saman íshokkíleik árið 2012.

Á sama tíma hefur Niinistö unnið að nánari samskiptum Finna við Bandaríkin og NATO.

Annars er það helst að frétta af hinum 69 ára forseta að hann og eiginkonan Jenni Haukio eiga von á sínu fyrsta barni saman í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×