Umfjöllun og viðtöl: FH 0-2 ÍBV | Eyjamenn með sannfærandi sigur í Krikanum

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Gunnar Heiðar Þorvaldsson.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson. Vísir/Eyþór
ÍBV vann óvæntan en jafnframt verðskuldaðan 2-0 sigur á FH í Kaplakrika fyrr í dag. Reynsluboltinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson var hetja eyjamanna í dag og skoraði bæði mörk liðsins í fyrri hálfleik.

 

 Fyrra markið kom á 39. mínútu eftir leikkafla þar sem að eyjmenn höfðu haft öll völd á vellinum. Gunnar Heiðar batt þá endahnútinn á frábæra sókn, sannkallað framherjamark. 

 

 Sex mínútum síðar bætti Gunnar við öðru marki, að þessu sinni úr víti. Steig ekki feilspor og sendi Gunnar Nielsen í vitlaust horn. 

 



Leikmenn FH mótmæltu vítaspyrnudómnum mikið en dómari leiksins, Ívar Orri Kristjánsson, var viss í sinni sök. Boltinn hefði, að hans mati, farið í hendi Robbie Crawford. 

 

 Stuttu síðar flautaði Ívar til hálfleiks og var staðan því 2-0 fyrir gestina þegar að liðin gengu til búningsherbergja. 

 

 Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, hefur greinilega látið sína menn heyra það í hálfleik því að þeir mættu af miklum krafti til síðari hálfleiks. Það dugði þó ekki til en sóknarmenn FH gekk brösulega að nýta þau fáu færi sem þeir fengu. Fljótlega fjaraði síðan undan áhlaupi FH og sigldu eyjamenn tiltölulega þægilegum 2-0 sigri í höfn. 

 

 Með sigrinum fór ÍBV upp í 8 sæti deildarinnar, með 19 stig, og eru stigin þrjú gríðarlega mikilvæg í fallbaráttunni sem liðið heyjir enn eitt árið. FH virðist hins vegar vera að missa af lestinni í toppbaráttu deildarinnar og verður sífellt ólíklegra að liðið nái dýrmætu evrópusæti. 

 

 Af hverju vann ÍBV?

Að undanskildu fyrsta korterinu var ÍBV einfaldlega betra liðið í Hafnarfirði í dag. Varnarleikur þeirra var þéttur og skyndisóknir þeirra hættulegar. Að sama skapi voru leikmenn FH óskynsamir og óþreyjufullir í sínu spili. Þegar ljóst var að stutta spilið væri ekki að ganga leituðu þeir í langar og tilviljunakenndar sendingar sem varnarmenn ÍBV áttu ekki í miklum vandræðum með. Leikmenn FH sköpuðu sér vissulega nokkur hálf færi, en þeim voru mislagðir fæturnir í dag og áttu í stökustu erfiðleikum með að hitta markið. Allt hrós fer hins vegar á leikmenn ÍBV, þeir börðust frá fyrstu mínútu og sýndu að þeir vilja vera í deild þeirra bestu áfram á næsta ári. 

 

 Hverjir stóðu uppúr?

Það segir sig sjálft að það verður að nefna framlag Gunnars Heiðars í þessum leik. Reynsluboltinn skoraði bæði mörk leiksins og tryggði sínum mönnum stigin þrjú. Þá tók hann mikilvægan þátt í uppspili ÍBV og gerði varnarmönnum FH oft erfitt fyrir. Í raun væri hægt að nefna flesta leikmenn liðsins í þessum dálki, en líkt og Gunnar Heiðar kom inn á í viðtali í leikslok var þetta sigur liðsheildarinnar. 

 

 Hvað gekk illa?

Líkt og komið hefur verið inná var sóknarleikur FH lengstum af ákaflega dapur. Einkenndist hann af misheppnuðum sendingum manna á milli og alltof mörgum tilviljunakenndum löngum boltum sem sköpuðu litla sem enga hættu. Þetta er ekki það FH lið sem maður á að þekkja. 

 

 Hvað gerist næst?

Næstkomandi miðvikudag heldur FH í Garðabæinn þar sem þeir mæta grönnum sínum, Stjörnunni, í undanúrslitum mjólkurbikarsins. ÍBV tekur hins vegar á móti botnliðinu Keflavík næstkomandi laugardag í deildinni. 

 

 

 Ólafur Kristjánnsson: Ég er búinn að sjá allan andskotann í sumar frá dómurum

 

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, var að vonum svekktur í leikslok. Aðspurður hver fyrstu viðbrögð hans var kvaðst Ólafur vera ósáttur með spilamennsku sinna minna, þeir hefðu ekki verið nógu cool, líkt og leikmenn ÍBV voru. 

 

 „Ég er ósáttur með það að tapa þessum leik og jafnframt hvernig við töpum honum. Við byrjum leikinn vel og af miklum krafti. Það var sá bragur á liðinu sem ég vil sjá. Svo kemur 10 mínútna kafli þar sem þeir eru að fá aukaspyrnur og hornspyrnur og ná með því að draga tempóið úr okkur. Eftir það náum við ekki að komast aftur í það sem við vorum að gera í byrjun leiks. Svo gera þeir vel í markinu sem þeir skora og eru cool. Ég hefði viljað sjá okkur spila þannig í dag. Síðan fáum við þessa vítaspyrnu í andlitið á okkur, sem var mikill skellur.”

 

 Ólafur var því næst spurður hvað honum hefði fundist um umræddan vítaspsyrnudóm.  Var þetta víti að hans mati? 

 

„Ég er búinn að sjá allan andskotann í sumar hjá dómurum deildarinnar. Í vesturbænum, þegar við spiluðum við KR, fór bolti í hendi og ekkert var dæmt. Ég skil þessa reglu ekki, þetta er orðin tóm þvæla. Það fer bara eftir því hvort dómarinn greiðir hár sitt til hægri eða vinstri hvað þeir dæma hverju sinni. Mér fannst þetta ekki vera víti og það er drullusvekkjandi.” 

 

 Léleg færanýting og óskynsöm spilamennska fór auk þess í taugarnar á Ólafi.

 

“Síðan erum við að elta í síðari hálfleik, verandi 2-0 undir, og leikmenn ÍBV voru skynsamir; lágu tilbaka og beittu skyndisóknum. Að sama skapi vorum við óskynsamir og nýttum ekki breidd vallarins í okkar sóknaraðgerðum. Við fengum vissulega færi en nýttum þau ekki nægilega vel. Við þurfum að hitta markið, sem okkur tekst einfaldlega ekki. Við erum á mjög erfiðum stað, okkur gengur erfiðlega að ná í úrslit og erum brothættir.” 

 

 Telur Ólafur að evrópusætið sé ennþá raunhæfur möguleiki eftir þetta tap?

 

„Þetta er fúl spurning að fá eftir svona tap. Eins og ég sagði áðan erum við greinilega á erfiðum stað með liðið. Við erum brothættir og mörg púsl sem eru ekki að falla í leikjum. Þannig að fókusin hjá okkur á bara að vera á æfinguna í fyrramálið og bikarleikinn á miðvikudaginn. Við þurfum að þvo þetta tap af okkur eins fljótt og mögulegt er, “ sagði Ólafur að lokum. 

 

 

 Kristján Guðmundsson: Fengum góða útrás á Þjóðhátíð

 

„Fyrstu viðbrögð eru að okkur finnst við hafa spilað þennan leik mjög vel, bæði sóknar- og varnarlega. Fyrra markið okkar fannst mér stórglæsilegt og spilamennskan almennt til fyrirmyndar. Við vissum það fyrir leikinn að við þyrftum að eiga okkar besta leik hér í dag og mér finnst okkur hafa tekist það,” sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, í leikslok.

 

 

Kristján var spurður hvernig gengið hefði að vinna úr vonbrigðunum síðustu helgi eftir 1-0 tap gegn Fylki í þjóðhátíðarleiknum svokallaða. Kristján sagði að það hefði verið gert á þjóðhátið, þar fengu menn lausan taum. 

 

 

„Við unnum úr því strax í klefanum eftir leikinn og fórum síðan í brekkuna á Þjóðhátið og fengum góða útrás þar. En við biðum spenntir eftir því að fá að spila aftur og fá að borga fyrir okkur á vellinum. Leikmenn setja sínar eigin reglur þegar kemur að þjóðhátið og eru mjög ábyrgir. Þetta hefur gengið mjög vel og það kom ekkert upp á.”

 

 

Kristján telur þennan sigur gefa þeim smá andrými í fallbaráttunni. Lið hans verði hins vegar að fylgja sigrinum eftir í komandi leikjum. 

 

 

„Þessi sigur gefur okkur andrými í þeirri baráttu sem deildin er. Við verðum að halda áfram að vinna þessa leiki og spila á þessari getu. Við erum að bíða eftir því að ná hausnum upp úr kafinu til að geta andað aðeins og leyft fleiri leikmönnum að spila, “ sagði Kristján að lokum. 

 

Gunnar Heiðar: Nennum þessari fallbaráttu ekki lengur

Gunnar, sem skoraði mörkin tvö og var hetja ÍBV í leiknum, var hógvær í leikslok. Sagði hann þetta hafa verið sigur liðsheildarinnar. 

 

 „Við vorum allir flottir í dag, þetta var sigur liðsheildarinnar. Auðvitað lá á okkur í seinni hálfleik en mér fannst aldrei vera nein brjáluð hætta. Þeir skapa mikið af hálf færum og við vorum þéttir. Þá hefðum við getað sett eitt eða tvö í viðbót í lokin. En stigin þrjú eru það sem skipta öllu máli,” sagði Gunnar

 

 

Gunnar það hafa verið erfitt að jafna sig eftir svekkelsið sem ríkti eftir 1-0 tapið gegn Fylki. 

 

„Eftir þjóðhátíðarleikinn skulduðum við stuðningsmönnum okkar og okkur sjálfum þetta. Þetta er mjög kærkomið og gríðarlega mikilvægur sigur fyrir okkur. Okkur fannst við vera á þeirri leið að við gætum unnið öll liðin í deildinni. Strúkturinn á liðinu var góður og allt gekk vel. Því var tapið gegn Fylki á þjóðhátið ennþá erfiðari biti að kyngja. En þetta er bara fótbolti og það er alltaf næsti leikur, “sagði Gunnar. 

 

 

Gunnar er kominn með nóg af því að vera í fallbaráttu og er bjartsýn fyrir komandi leiki. 

 

„Í leiknum gegn Fylki fenguð við sjens til að rífa okkur upp úr þessari botnbaráttu, sem við nennum ekkert að vera í lengur. Það tókst ekki, en við fengum þrjú stig í staðinn í dag, og það er Keflavík næst. Það er leikur sem við ætlum að vinna og þá náum við vonandi að hífa okkur aðeins ofar í þessari deild, “ sagði Gunnar að lokum. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira