Þó svo Gylfi Þór Sigurðsson hafi meiðst eftir rúmlega 20 mínútna leik um síðustu helgi þá var hann samt duglegri en allir félagar sínir að hlaupa í leiknum gegn Brighton.
Eins og þjóðinni er kunnugt er óttast að Gylfi hafi skaddað liðbönd í leiknum en það stöðvaði hann ekki frá því að hlaupa eins og óður maður. Enginn hljóp yfir meira svæði og hann var í þriðja sæti yfir flesta spretti á vellinum. Ofurmaður.
Everton vann svo leikinn 2-0 en eftir á að hyggja var auðvitað mjög slæmt að hann skildi hafa spilað leikinn og það augljóslega af fullum krafti.
Gylfi Þór fór í skoðun hjá hnésérfræðingi í gærkvöldi og þjóðin bíður nú með öndina í hálsinum eftir frekari tíðindum enda var óttast í gær að hann gæti misst af HM.
