Erlent

Vélin sem hrapaði var glæný

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Unnið er að því að koma sem mestu af braki flugvélarinnar á land.
Unnið er að því að koma sem mestu af braki flugvélarinnar á land. Vísir/AP
Talið er afar ólíklegt að einhver þeirra 189 sem um borð voru í flugvél Lion Air sem brotlenti í sjóinn skömmu eftir flugtak frá Jakarta í Indónesíu í nótt hafi komist lífs af. Flugvélin sem hrapaði var glæný.

Flugvélin var af gerðinni Boeing 737 MAX 8 en Icelandair tók í notkun flugvélar sömu tegundar fyrr á árinu auk fjölda annarra flugfélaga. Sérfræðingar sem BBC ræddi við segja  hinsvegar að allt of snemmt sé að draga einhverjar ályktanir um öryggi Boeing 737 MAX 8 flugvélanna.

Er þetta fyrsta flugslysið þar sem MAX 8 kemur við sögu. Í frétt BBC segir að mikil athygli hafi beinst að því af hvaða gerð flugvélin var sem hrapaði og spurningar hafi vaknað hvernig svo ný flugvél geti hrapað en þessi tegund flugvéla var tekin í notkun á síðasta ári.

Lítið sem ekkert liggur fyrir um ástæður flugslyssins en þrettán mínútur eftir flugtak slitnaði sambandið við flugvélina og samkvæmt miðlum í Indónesíu hafði flugstjórinn beðið um að fá að snúa við til Jakarta.

Leit stendur nú yfir að braki flugvélarinnar sem talið er liggja á 30 til 40 metra dýpi.

Flugvélin sem hrapaði hafði aðeins verið í notkun frá því í ágúst og aðeins verið flogið í 800 tíma að því er yfirmaður öryggisnefndar í samgöngumálum Indónesíu sagði við fjölmiðla. Þá sagði forstjóri Lion Air að vélin hafði áður glímt við „tæknilegt vandamál“ en að það hafi verið lagað.

Indónesískum flugfélögum var bannað árið 2007 að fljúga til Evrópu vegna þess hve tíð flugslys eru þar. Nokkur flugfélög fengu undantekningar og var bannið fellt niður að fullu í júní. Bandaríkin felldu niður sambærilegt bann árið 2016 eftir að hafa ekki hleypt flugfélögunum til Bandaríkjanna í tíu ár.Fréttastofa hefur reynt að ná tali af Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, til þess að spyrja hvort að Icelandair muni bregðast við slysinu á einhvern hátt, í dag án árangurs.Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.