Fimm ár eru liðin frá því Icelandair tilkynnti um þessi stærstu flugvélakaup Íslandssögunnar og nú er fyrsta vélin komin í flugprófanir hjá Boeing. Búið er að mála hana í litum Icelandair og hefur hún fengið skráningarstafina TF-ICE.
Hún verður afhent Icelandair næstkomandi miðvikudag, þann 28. febrúar, að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair. Flugmenn Icelandair munu fljúga henni ytra í þjálfunarskyni í nokkra daga en hún er síðan væntanleg til Íslands þann 5. mars.

Alls keypti Icelandair sextán eintök í tveimur lengdum, MAX 8 og MAX 9. Styttri gerðin verður með 153 sætum en sú lengri með 173 sætum.
Önnur vél er væntanleg um miðjan mars og sú þriðja í apríl. Þær verða innréttaðar hérlendis og fara síðan á áætlunarleiðir í byrjun maímánaðar. Síðasta þotan af þessum sextán verður afhent árið 2021.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: