Erlent

Viðskiptajöfur lést í flugslysi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flugvélin er gjörónýt eftir slysið.
Flugvélin er gjörónýt eftir slysið. ABC
Áströlsk yfirvöld reyna nú að safna saman braki sjóflugvélar sem fórst í grennd við Sidney í gærkvöldi, með sex innanborðs sem allir létu lífið.

Um var að ræða breska viðskiptajöfurinn Richard Cousins, fjóra meðlimi fjölskyldu hans og flugmanninn, sem var kanadískur.

Vélin stakkst ofan í á sem rennur um fimmtíu kílómetra norður af Sidney. Þar fór hún á kaf í ánna á um þrettán metra dýpi og er verið að hýfa hluta hennar upp. 

Flugvélin var 55 ára gömul og er talin hafa verið að taka krappa hægri beygju þegar eitthvað fór úrskeiðis. Ljóst sé af braki vélarinnar að hún hafi skollið allharkalega á vatnsflötinn. Ekki er ljóst hvað olli slysinu en sama flugvél lenti í slysi árið 1996 þar sem flugmaðurinn lét lífið.

Kafarar eru að sögn ástralskra miðla enn að störfum og reyna að hafa uppi á hlutum braksins sem gætu varpað skýrara ljósi á slysið. Þá eru þeir einnig að leita að persónulegum munum fjölskyldunnar og flugmannsins sem koma á til ættingja þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×