Erlent

Opið fyrir skipaferðir á nýjan leik

Samúel Karl Ólason skrifar
Kerchsundi var lokað með olíuflutningaskipi.
Kerchsundi var lokað með olíuflutningaskipi. Vísir/AP
Yfirvöld Rússlands segja að opnað hafi verið fyrir umferð skipa um Kerch-sund eftir að því var lokað í gær. Rússar segja þremur skipum flota Úkraínu hafa verið siglt inn á yfirráðasvæði Rússlands og áhafnir þeirra hafi neitað að hlýða skipunum rússneska flotans. Því hafi verið skotið á skipin og hald lagt á þau. Einhverjir sjóliðar eru sagðir hafa særst en ekki liggur fyrir hver margir.

Ríkin gerðu samkomulag árið 2003 um að Asóvshaf væri sameiginlegt hafsvæði þeirra. Asóvsaf liggur austur af Krímskaga og suður af landsvæði Úkraínu og yfirráðasvæði aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu sem Rússar hafa stutt við bakið á með vopnum, hermönnum og öðrum hætti.

Yfirvöld Úkraínu segja að skipin hafi verið á leið frá Odessa til borgarinnar Mariupol. Sú borg er undir stjórn yfirvalda í Kænugarði og er nálægt yfirráðasvæði aðskilnaðarsinnanna.

Rússar innlimuðu Krímskaga af Úkraínu árið 2014 og tóku óeinkennisklæddir sérsveitarmenn þátt í innlimuninni. Í fyrstu neituðu yfirvöld Rússlands að viðurkenna að þar væru hermenn þeirra á ferð en Vladimir Pútín, forseti Rússlands, viðurkenndi það seinna meir.

Brú var byggð yfir Kerchsund eftir innlimun Krímskaga og var hún opnuð fyrr á þessu ári. Síðan þá hafa Rússar aukið umsvif sín í Asóvshafi og að undanförnu hafa Rússar farið um borð í öll skip sem siglt er til eða frá höfnum Úkraínu og leitað þar um borð.



Rússsar segjast hafa opnað lögreglurannsókn vegna meintra brota áhafna skipanna á landhelgi Rússlands, samkvæmt TASS fréttaveitunni, sem er í eigu rússneska ríkisins.



Yfirvöld Rússlands segja að skipunum þremur hafi verið siglt inn á yfirráðasvæði Rússlands, sem hafi verið lokað tímabundið, samkvæmt Washington Post, og að áhafnir þeirra hafi hagað sér með hættulegum hætti. Markmiðið hafi verið að skapa til deilna.



Úkraínumenn segja þetta kolrangt. Utanríkisráðuneyti Úkraínu segir Rússa hafa hagað sér með ógnandi hætti og þeir hafi beitt ólöglegu afli gegn skipunum þremur og áhöfnum þeirra. Þar áður hafi rússnesku skipi verið siglt á dráttarbát, sem síðar var handsamaður, og hann skemmdur.

Yfirvöld beggja ríkja hafa kallað eftir fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem fer fram seinna í dag.


Tengdar fréttir

Rússar loka fyrir Asovshaf

Rússar hafa brugðist við ásökunum Úkraínu með því að loka fyrir umferð um Kerchsund




Fleiri fréttir

Sjá meira


×