Erlent

Saka Rússa um að hafa hertekið þrjú skip

Birgir Olgeirsson skrifar
Vladimir Putin, forseti Rússlands.
Vladimir Putin, forseti Rússlands. Vísir/Getty
Úkraínsk yfirvöld hafa sakað Rússa um að skjóta á og hertaka nokkur skip úkraínskra yfirvalda undan strönd Krímskaga.

Greint er frá þessu á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC en Reuters sagði frá því fyrr í dag að Rússar hefðu stöðvað þrjú skip á vegum úkraínska sjóhersins sem voru á leið til Asovshafsins í gegnum Kerch-sundið.

Eru Rússarnir sagðir hafa komið stóru flutningaskipi fyrir undir brú sem er á yfirráðasvæði Rússa. Hafa ásakanir gengið á milli ríkjanna um ógnandi hegðun.

BBC segir úkraínsk stjórnvöld nú saka rússnesk stjórnvöld um að hafa hertekið tvö herskip og dráttarbát. Eru tveir skipverjar sagðir hafa meiðst í átökum.

Spenna hefur aukist í samskiptum ríkjanna vegna hafsvæðisins við Krímskaga, sem Rússar hertóku árið 2014.

Rússar höfðu sakað Úkraínumenn um að hafa farið ólöglega inn á rússneskt hafsvæði. Úkraínski sjóherinn segir í yfirlýsingu að siglt hafi verið á  herskipin Berdyansk og Nikopol þegar reynt var að snúa þeim í burtu. Dráttarbáturinn hafi verið neyddur til að stöðva för. 

Rússar höfðu áður sent tvær orrustuþotur og tvær þyrlur til að fylgjast með för úkraínsku skipanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×