Erlent

Rússar líkja ásökunum um tölvuárásir við nornaveiðar

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Rússnesk stjórnvöld andmæla ásökunum um tölvuárásir.
Rússnesk stjórnvöld andmæla ásökunum um tölvuárásir. Vísir/Getty
Rússar eru orðnir leiðir á ásökunum að þeir hafi staðið að baki tölvuárásum sem urðu til þess að kosninganiðurstöður bandarísku forsetakosninganna í nóvember síðastliðinn, urðu Trump í hag. Líkja þeir þessum ásökunum við nornaveiðar. BBC greinir frá.

Dmitry Peskov uppslýsingafulltrúi Kremlin í Moskvu lýsir því yfir að skýrsla sem Bandaríska leyniþjónustan gaf út nýverið byggi á engum heildstæðum grunni. Í skýrslunni kemur fram að Vladímír Pútín forseti Rússlands hafi í reynd fyrirskipað tölvuárás þar sem brotist var inn í tölvupósta andstæðings Trumps, Hillary Clinton, í þeirri von að veita Trump forskot í kosningabaráttunni og stuðla að sigri hans. Bandaríska leyniþjónustan vill þannig meina að Rússnesk stjórnvöld hafi haft hag á sigri Trumps.

Viðbrögð Peskovs eru fyrstu opinberlegu viðbrögðin frá rússneskum stjórnvöldum síðan Donald Trump fékk skýrsluna í sínar hendur síðastliðinn föstudag en sama dag gekk hann til fundar við ráðamenn leyniþjónustunnar. Sagði hann fundinn hafa borið góðan árangur. Rússnesk stjórnvöld neita alfarið afskiptum sínum af forsetakosningunum umdeildu og segjast ekki eiga þátt í tölvuárásunum umtöluðu.

Trump hefur hingað til haldið því fram að ásakanir um tölvuárásir eigi sér enga stoð en eftir að hafa fengið skýrsluna í hendurnar hefur hann dregið þær hugmyndir sínar til baka. Hann segist nú ekki neita fyrir það að rússnesk stjórnvöld gætu hafa staðið á  bak við tölvuárásirnar án þess þó að segja að það sé ótvírætt svo. Hann nefndi einnig að hann myndi leggja sitt af mörkum að stöðva hvers kyns tölvuárásir á bandarísk stjórnvöld og fyrirtæki í sinni valdatíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×