Íslenski boltinn

Sölvi Geir kveður atvinnumennskuna með þessari mynd | Einn sá eftirsóttasti í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sölvi Geir Ottesen vann þrjá stóra titla með FCK.
Sölvi Geir Ottesen vann þrjá stóra titla með FCK. Vísir/Getty
Sölvi Geir Ottesen mun að öllum líkindum spila í Pepsi-deildinni næsta sumar. Hann hefur í það minnsta gefið það út að hann sé á heimleið.

Sölvi Geir tilkynnti það á Instagram að tíma hans erlendis sé að ljúka. Hann birtir með mynd af sér í búningi allra átta félaganna sem hann hefur spilað með í atvinnumennsku.

„Tími minn í útlöndum er á enda og ég vil þakka öllu fólkinu, öllum liðsfélögunum, öllu starfsfólkinu, öllum stuðningsmönnunum, vinunum og fjölskyldunni sem tóku þátt í þessu ferðalagi með mér," skrifaði Sölvi inn á Instagram í dag.







Sölvi Geir er 33 ára gamall varnarmaður og hefur spilað í atvinnumennsku í þrettán ár eða síðan að hann yfirgaf Víkinga eftir 2004 tímabilið.

Sölvi Geir hefur síðan leiki í Svíþjóð, Danmörku, Rússlandi og Kína. Hann var að klára tímabilið með kínverska félaginu Guangzhou R&F sem endaði í fimmta sæti.  Sölvi hefur spilað með fjórum félögum í Kína frá 2015.

Sölvi Geir varð tvisvar sinnum danskur meistari með FC Kaupmannahöfn (2011 og 2013) og varð bæði sænskur meistari á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku með  Djurgården (2005).

Sölvi Geir hefur leikið 28 landsleiki fyrir Ísland, þann fyrsta á móti Póllandi 2005 og þann síðasta á móti Finnlandi í janúar 2016.

Það er ljóst að íslensku félögin munu keppast um undirskrift Sölva Geirs en hann hefur meðal annars verið orðaður við FH sem og fleiri félög í Pepsi-deildinni. Hér er á ferðinni einn sá eftirsóttasti fyrir íslensku félögin á félagsskiptamarkaðnum í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×