Fylkir heldur sér í toppbaráttunni í Inkasso deildinni eftir 4-1 sigur á Leikni frá Fáskrúðsfirði á heimavelli í dag. Albert Brynjar Ingason skoraði þrennu fyrir Fylki.
Andrés Már Jóhannesson kom Fylki yfir á 22. mínútu með marki eftir stoðsendingu frá Valdimar Þór Ingimundarsyni. Gestirnir frá Fáskrúðsfirði voru þó ekki lengi að jafna metinn og skoraði Hilmar Freyr Bjartþórsson á 26. mínútu.
Þremur mínútum síðar komst Fylkir aftur yfir þegar Albert Brynjar skoraði með öxlinni eftir fyrirgjöf frá Ásgeiri Erni Arnþórssyni.
Albert Brynjar var svo aftur á skotskónnum þegar hann fékk sendingu frá Andrési Má og renndi boltanum í markið á 34. mínútu.
Þrennan var fullkomnuð hjá Albert á 74. mínútu þegar hann skoraði eftir sendingu frá Daða Ólafssyni.
Á 49. mínútu kom Valdimar Þór boltanum í markið fyrir Fylki með fínu skoti yfir Robert Winogrodzki í marki Leiknis, en var markið dæmt af vegna rangstöðu.
Með sigrinum jafnar Fylkir Þrótt að stigum í öðru sætinu. Keflavík er með eins stigs forystu á toppi deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara voru fengnar af fótbolti.net

