Nigel Winterburn, fyrrverandi leikmaður Arsenal, segir það gríðarlega mikilvægt fyrir félagið að halda Alex Oxlade-Chamberlain í sínum röðum.
Áhugi er á enska landsliðsmanninum frá Manchester City, Liverpool og Chelsea og samkvæmt heimildum SkySports mun Oxlade-Chamberlain funda með forráðamönnum Arsenal í vikunni.
„Þegar hann spilar sem vængbakvörður er hann besti leikmaður liðsins,“ sagði Winterburn.
„Spurningin er hins vegar hvort hann vilji spila í þeirri stöðu,“ bætir Winterburn við. „Er Arsenal að bjóða honum minni laun en öðrum leikmönnum liðsins, þrátt fyrir að hann sé jafn mikilvægur?“
„Frá lokum síðustu leiktíðar og nú í byrjun nýs tímabils hefur hann skilað frábærum frammistöðum. Hann er klárlega leikmaður sem Arsenal mega ekki missa.“
Samningur hins 24 ára Oxlade-Chamberlain rennur út næsta sumar og breskir fjölmiðlar herma ólíklegt að hann framlengi við Arsenal á meðan áhugi er frá öðrum stórliðum.
