Priti Patel, ráðherra þróunarmála í Bretlandi, sagði af sér í kvöld á fundi með Theresu May forsætisráðherra. Í kjölfarið sagði hún upp skriflega og birti Guardian myndir af uppsagnarbréfi Patel og skriflegu svari May.
Í dag var sagt frá því að framtíð ráðherrans í ríkisstjórn væri í húfi eftir að upp komst um leynifundi hennar. með háttsettum stjórnmálamönnum og fulltrúum stofnana í Ísrael. Fundina átti hún þegar hún var í fríi í landinu.
Patel bað May afsökunar á mánudag á að hún hafi ekki greint utanríkisráðuneyti landsins frá fundunum sem hún átti í ágúst síðastliðinn. Patel átti meðal annars fund með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Enn er mörgum spurningum ósvarað um þessa leynifundi en þessi ákvörðun er tekin eftir að frekari upplýsingar hafa komið í ljós síðustu daga um þessa leynifundi.
Í bréfi sínu sem merkt er 8. nóvember, biður Patel bæði May og alla ríkisstjórn Bretlands afsökunar. Breskir miðlar segja að May hafi neytt Patel til þess að segja upp. Patel tók við embætti ráðherra þróunarmála árið 2016 en hefur setið á þingi frá árinu 2010.
