Erlent

Bretar tilbúnir að svara tölvuárásum Rússa

Samúel Karl Ólason skrifar
Boris Johnson og Sergei Lavrov.
Boris Johnson og Sergei Lavrov. Vísir/EPA
Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, mun í dag vara yfirvöld Rússlands við að ef þeir hætti ekki tölvuárásum gegn Bretlandi muni Bretar svara fyrir sig. Johnson, sem er staddur í Moskvu fundar í dag með starfsbróður sínum Sergei Lavrov. Á fundi þeirra mun Johnson segja að Bretar sætti sig ekki við fjandsamlega hegðun Rússlands.

Johnson ræddi við blaðamenn áður en hann lagði af stað til Moskvu þar sem hann sagði samband Bretlands og Rússlands ekki hafa verið verra í langan tíma. Lavrov hefur slegið á svipaða strengi.



Ráðherrann sagði einnig að að einhverju leyti væru Rússar að beita sér með fjandsamlegri hætti en þeir hafi gert í kalda stríðinu.

„Ég mun gera ljóst að það eru hlutir sem við eigum erfitt með að sætta okkur við og munum ekki sætta okkur við,“ sagði Johnson. Hann er fyrsti utanríkisráðherra Bretlands sem heimsækir Rússlands í fimm ár. Fundi Johnson og Lavrov hefur þegar verið frestað tvisvar sinnum áður.



Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sakaði Rússa í síðasta mánuði um að beita tölvuárásum og áróðri til að grafa undan vestrænum lýðræðisríkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×