Innlent

Aukið fé í Skriðdal og Grindavíkurveg

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Grindavíkurvegi.
Frá Grindavíkurvegi. Mynd/Otti Sigmarsson
Alþingi samþykkti í gærkvöldi að bæta 755 milljónum króna til samgöngumála í atkvæðagreiðslu eftir 2. umræðu um fjárlagafrumvarpið, samkvæmt tillögu meirihluta fjárlaganefndar. Þetta þýðir að fyrirhugaður niðurskurður samgönguáætlunar mildast sem þessu nemur. Eftir sem áður þarf að skera vegaframkvæmdir á næsta ári niður um 6,2 milljarða króna, frá því sem áður hafði verið boðað í samgönguáætlun. 

Í nefndaráliti fjárlaganefndar, sem kynnt var í gær, var viðbótin eyrnamerkt þremur verkefnum. Í fyrsta lagi fara 480 milljónir króna til þess að leggja bundið slitlag á veginn um Skriðdal á Austurlandi og endurbæta hann. Í öðru lagi fara 200 milljónir króna til endurbóta á Grindavíkurvegi vegna umferðaröryggismála. Loks fara 75 milljónir króna til almenningssamgangna á landsbyggðinni.

Nýr samgönguráðherra hefur lýst gildandi samgönguáætlun sem óheppilegum óskalista með of miklum væntingum, sem allir vissu að erfitt yrði að fjármagna, og boðað nýja samgönguáætlun á vorþingi. Þar mun skýrast hvaða verkefni verður unnt að ráðast í.

Stöð 2 greindi í vikunni frá helstu verkefnum sem að öllum líkindum lenda undir niðurskurðarhnífnum á næsta ári. Þau eru breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi, breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss, endurbygging vega á Dynjandisheiði, í Gufudalssveit, Árneshreppi, Bárðardal og til Borgarfjarðar eystra. Þá verður skorið af Dettifossvegi og brú yfir Hornafjörð.


Tengdar fréttir

Mikil sorg í Grindavík: Vegurinn á lista yfir áhættumestu vegi landsins

Íbúar í Grindavík eru harmi slegnir eftir að 18 ára stúlka lést í bílslysi á Grindavíkurvegi í gær. Forseti bæjarstjórnar og alþingismaður segja óskiljanlegt að ekki hafi verið gerðar útbætur á veginum áður en hörmulegt slys átti sér stað. Ítrekað hafi verið óskað eftir þeim. Vegurinn sé á lista yfir áhættumestu og slysamestu vegi landsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.