Enski boltinn

Herrera: City skapaði ekki mikið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ander Herrera hefur leikið með Manchester United undanfarin þrjú ár.
Ander Herrera hefur leikið með Manchester United undanfarin þrjú ár. vísir/getty
Ander Herrera sagði það ótrúlegt að Michael Oliver hafi ekki dæmt vítaspyrnu er hann féll í teignum í stórleik Manchester-liðanna um helgina.

Í stöðunni 2-1 fór Herrera niður innan vítateigs City eftir viðskipti við Nicolas Otamendi. Oliver gaf Herrera gult spjald fyrir leikaraskap.

„Hann bjóst ekki við því að ná í boltann. Ég snerti boltann fyrst og hann trampaði á fætinum á mér. Ég held allir hafi séð það. Allir geta gert mistök, líka dómarar,“ sagði Herrera.

Sjá einnig: Allar stóru dómaraákvarðanir stórleikjanna réttar

United tapaði leiknum, en öll mörk leiksins komu eftir mistök í vörn andstæðingsins.

„Það er erfitt að tapa eins og við gerðum því við töpuðum á tveimur óheppnismörkum. Fyrir utan það fannst mér þeir ekki skapa sér mikið,“ sagði Spánverjinn.

„Þegar þú spilar á móti City þá býstu við því að eiga í vandræðum þegar þeir eru með boltann. Við vorum ekki í of miklum vandræðum með þá, sem er ástæða þess að við erum enn vonsviknari.“

Herrera er nú kominn með fjögur gul spjöld á tímabilinu, einu spjaldi frá leikbanni. Þar sem ekki er hægt að áfrýja gulum spjöldum þarf Herrera að passa sig í næstu sex leikjum fram að áramótum til að forðast að fara í bann.

„Ég átti ekki skilið að fá gult spjald. Í fyrri hálfleik voru eins kringumstæður með Gabriel Jesus og Sane og þeir fengu ekki gult spjald.“

„Á Spáni getur þú áfrýjað öllu sem er ósanngjarnt. Þetta er eitt atriði þar sem enska úrvalsdeildin gæti bætt sig. Að mínu mati er skipulagið það besta í heimi, en það er leiðinlegt að geta ekki áfrýjað gulum spjöldum,“ sagði Ander Herrera.

United er nú 11 stigum á eftir grönnum sínum í City. Liðið fær Bournemouth í heimsókn á Old Trafford á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×