Innlent

Biskup knúið á um kauphækkun í rúm tvö ár

Heimir Már Pétursson skrifar
Kjararáð hefur ákveðið að hækka mánaðarlaun Biskups Íslands um 271 þúsund krónur og er hækkunin afturvirk frá síðustu áramótum, sem færir biskupi 3,3 milljónir króna í eingreiðslu. Biskupinn hefur knúið á um kauphækkun síðast liðinn tvö ár.

Biskup Íslands hefur allt frá því í ágúst árið 2015 reynt að fá kjör sín leiðrétt með samskiptum við kjararáð. Í þeim bréfasamskiptum tíundar Agnes Sigurðardóttir skyldur biskups og umfang embættisins, sem meðal annars felist í yfirstjórn kirkjunnar, tilsjón með og eftirliti með kristinhaldi, vísiteringum til presta, kirkna og um 270 safnaða. Gjarnan falli störf biskups utan hefðbundins vinnutíma að kvöldlagi og um helgar.

Biskup hafi einnig skyldur varðandi samskipti við útlönd sem og á alls kyns opinberum hátíðum fyrir utan yfirstjórn á Biskupsstofu.

Þá greiði biskup nú leigu af bústað sem honum sé skylt að búa í.Kjararáð ákvað á fundi sínum á sunnudag að hækka laun biskups úr tæplega 1,3 milljónum á mánuði í rúmar 1,5 milljónir en til samanburðar við laun ráðherra lítur dæmið svona út.

Forsætisráðherra er nú með 2,021.825 krónur í laun að meðtöldu þingfararkaupi og aðrir ráðherra eru með 1.826.273 krónur á mánuði.

Biskup Íslands var að teknu tilliti til fastrar yfirvinnu með 1.281.961  krónur í mánaðarlaun, en launin verða 1.553.359 eftir ákvörðun kjararáðs.

Það þýður hækkun launa með fastri yfirvinnu upp á 25 prósent.Munurinn á launum biskups og ráðherra verður því 272.914 og biskups og forsætisráðherra  468.466.

 Kjararáð úrskurðaði að laun biskups skyldu hækka frá og með síðustu áramótum og því má áætla að biskup fái um tæpar 3,3 milljónir króna í eingreiðslu vegna þessarar afturvirkni.

Athugasemd: Í kvöldfréttum Stöðvar 2 voru laun biskups sögð hafa hækkað meira en í raun og veru. Hefur það verið leiðrétt í þessari útgáfu af fréttinni sem fór á vef Vísi og er beðist velvirðingar á þessum mistökum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×