Innlent

Kirkjumenn fá launahækkun frá kjararáði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Frá Kirkjuþingi fyrr á þessu ári.
Frá Kirkjuþingi fyrr á þessu ári. vísir/anton brink
„Við erum búnir að vinna þetta eins vel og hægt er í hendurnar á kjararáði og erum mjög fegnir að það standi til að birta þennan úrskurð,“ segir Kristján Björnsson, formaður Prestafélags Íslands, um nýjan úrskurð kjararáðs um laun þeirra embættismanna sem heyra undir þjóðkirkjuna.



Kristján Björnsson, formaður Prestafélags Íslands.
Úrskurður kjararáðs var felldur um helgina og verður birtur á vef ráðsins um miðja viku. Engar upplýsingar fást hjá meðlimum ráðsins um innihaldið. Einn kirkjunnar þjóna sem ekki vill koma fram undir nafni segir að ákvörðunin færi biskupi og vígslubiskupunum tveimur „verulegar hækkanir“.

Aðspurður um þetta kveðst Kristján Björnsson ekki telja rétt að svara spurningum um úrskurðinn fyrr en kjararáð sjálft birtir hann. Um er að ræða biskupa, prófasta, presta og svo framvegis. Kristján segir presta ekki hafa fengið um sig sérstaka kjaraákvörðun frá árinu 2005 heldur aðeins fylgt almennum breytingum. Þeir hafi tekið á sig launalækkun eftir hrunið og ekki gert neinar kröfur nú heldur einungis gert kjararáði grein fyrir störfum sínum.

Ekki náðist í Agnesi M. Sigurðardóttur biskup og Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti, segist ekki hafa heyrt um niðurstöðu kjararáðs. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×