Enski boltinn

Gordon Banks vill ekki sjá Hart í enska markinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joe Hart hefur ekki spilað vel upp á síðkastið.
Joe Hart hefur ekki spilað vel upp á síðkastið. vísir/getty
Gordon Banks, sem varði mark Englendinga þegar þeir urðu heimsmeistarar 1966, segir að Joe Hart eigi ekki að vera aðalmarkvörður enska landsliðsins.

Banks segir að Hart, sem er í láni hjá West Ham frá Manchester City, hafi gert sig sekan um skelfileg mistök á tímabilinu.

„Mér finnst hann ekki vera að spila vel. Ég hef séð hann gera skelfileg mistök og er oft heppinn að fá ekki á sig mörk vegna þeirra,“ sagði hinn 79 ára gamli Banks við BBC.

Hann vill sjá Jack Butland, markvörð Stoke, í marki Englands. Butland missti af vináttulandsleikjunum gegn Þýskalandi og Brasilíu í síðasta mánuði vegna meiðsla.

„Mér finnst Butland vera mjög góður markvörður. Hann var óheppinn að meiðast því hann hefði pottþétt spilað allavega annan vináttulandsleikinn,“ sagði Banks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×