Erlent

Segja kafbátinn hafa staðist allar öryggisprófanir

Þórdís Valsdóttir skrifar
Aðstandendur sjóliðanna sem eru um borð í kafbátnum ARA San Juan segja kafbátinn hafa verið í slæmu ástandi. Fjöldi fólks kom saman við flotastöðina Mar del Plata í gær til að biðja fyrir sjóliðunum.
Aðstandendur sjóliðanna sem eru um borð í kafbátnum ARA San Juan segja kafbátinn hafa verið í slæmu ástandi. Fjöldi fólks kom saman við flotastöðina Mar del Plata í gær til að biðja fyrir sjóliðunum. vísir/afp
Argentínski sjóherinn heldur því fram að kafbáturinn ARA San Juan sem leitað er að hafi verið í góðu ástandi. Ekkert hefur spurst til kafbátsins frá 15. nóvember.

Fjörutíu og fjórir sjóliðar voru um borð í kafbátnum og hafa aðstandendur þeirra sagt að kafbáturinn hafi ekki verið í góðu ásigkomulagi. Kafbáturinn er 34 ára gamall.

Argentínski sjóherinn segir að kafbáturinn hafi staðist öryggiseftirlit áður en báturinn hélt af stað frá höfninni Ushuaia til Mar del Plata þann 8. nóvember síðastliðinn.

„Tveimur dögum áður en báturinn sigldi af stað var gerð prófun á öllu stýrikerfi bátsins,“ sagði Enrique Balbi talsmaður sjóhersins á blaðamannafundi á laugardag.

Möguleg sprenging nálægt ferðum ARA San Juan

Balbi sagði að skipstjóri kafbátsins hafi tilkynnt bilun í rafgeymi bátsins, en stuttu síðar haft samband í gegnum gervihnattasíma og sagt að vandamálið væri leyst og báturinn myndi halda för sinni áfram til Mar del Plata.

Þetta voru síðustu samskipti sem höfð voru við áhöfn ARA San Juan áður en hann hvarf. Vonir um að áhöfnin finnist á lífi hafa dvínað eftir að bandaríski sjóherinn tilkynnti að sama dag og báturinn hvarf hafi sprenging átt sér stað neðansjávar.

Stofnun samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO) hefur einnig tilkynnt möglega sprengingu í Suður-Atlantshafi, nálægt staðsetningu ARA San Juan þann 15. nóvember.

„Við erum á því stigi að við erum vongóð og vonlaus á sama tíma. Við erum einbeitt í því að finna kafbátinn,“ sagði Enrique Balbi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×