Erlent

Puigdemont fer ekki til Madrídar

Atli Ísleifsson skrifar
Carles Puigdemont er forseti heimastjórnar Katalóníu.
Carles Puigdemont er forseti heimastjórnar Katalóníu. Vísir/AFP
Carles Puigdemont, forseti heimastjórnar Katalóníu, mun ekki ferðast til höfuðborgarinnar Madrídar til að flytja ræðu á öldungadeildarþingi Spánar áður en greidd verða atkvæði um hvort að afturkalla skuli sjálfstjórn Katalóníu.

Rætt hafði verið um að Puigdemont myndi heimsækja þingið síðdegis á morgun, en í stað þess verður hann viðstaddur þegar þing Katalóníu kemur saman á sama tíma. Frá þessu greina spænskir fjölmiðlar.

Öldungadeildarþingmenn Spánar munu greiða atkvæði um það á föstudag hvort beita eigi 155. grein stjórnarskrárinnar og afturkalla sjálfstjórn Katalóníu, en flokkur Mariano Rajoy forsætisráðherra er þar með meirihluta.

Bandalag aðskilnaðarsinna á katalónska héraðsþinginu hefur ekki greint frá því hvernig það muni bregðast við ákvörðun öldungardeildar spænska þingsins. Spænskir fjölmiðlar segja þrjá möguleika vara á borðinu hjá héraðsstjórninni: að boða til nýrra kosninga í Katalóníu; að lýsa yfir sjálfstæði og boða til nýrra kosninga; og að lýsa yfir sjálfstæði án þess að boða til nýrra kosninga.

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á spænska þinginu, Jafnaðarmannaflokkurinn PSOE, hefur til þessa stutt aðgerðir og viðbrögð Rajoy forsætisráðherra, en segir nú að mögulega þurfi ekki að afturkalla sjálfstjórn héraðsins, ákveði Puigdemont að boða til nýrra kosninga fyrir föstudag.


Tengdar fréttir

Munu ekki virða áætlanir stjórnvalda í Madríd

Carles Puigdemont, leiðtogi héraðsstjórnar Katalóníu, segir það ekki koma til greina að virða áætlanir stjórnvalda á Spáni um að svipta Katalóníu sjálfstjórn.

Halda áfram þrátt fyrir hótun stjórnarinnar um fangelsisvist

Stjórnvöld í Madríd á Spáni ætla að afturkalla sjálfstjórn Katalóníu. Katalónar stefna ótrauðir áfram að því að lýsa yfir sjálfstæði. Utanríkisráðherra landsins segir héraðsstjórnina vera að gera tilraun til byltingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×