Erlent

Trump stingur upp á að bera greindarvísitölu sína saman við utanríkisráðherrans

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hefur verið sagður grafa undan valdi og áhrifum Tillerson, utanríkisráðherra síns (t.h.).
Trump hefur verið sagður grafa undan valdi og áhrifum Tillerson, utanríkisráðherra síns (t.h.). Vísir/AFP
Ef Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kallaði Donald Trump forseta raunverulega „fávita“ ættu þeir að bera saman greindarvísitölu sína. Þetta er mat Trump sem er ekki í vafa um hvor þeirra færi með sigur af hólmi.

Mikla athygli vakti þegar NBC-fréttastöðin fullyrti í síðustu viku að Tillerson hefði kallað Trump „helvítis fávita“. Fréttin fjallaði að öðru leyti um að Tillerson væri svo ofboðið að hann hefði verið kominn á fremsta hlunn með að segja af sér í sumar.

Í viðtali við Forbes segist Trump ekki trúa að Tillerson hafi raunverulega látið þessi orð falla. Hafi hann hins vegar gert það er forsetinn með svar við því.

„Ég held að þetta séu gervifréttir en ef hann gerði þetta þá býst ég við að við verðum að bera saman greindarvísitölur og ég get sagt þér hver mun vinna,“ segir Trump við tímarit.

Telur sig ekki grafa undan valdi Tillerson

Tillerson hefur sjálfur neitað því að hann hafi ætlað að segja af sér og talsmaður utanríkisráðuneytisins hafnaði því að hann hefði notað orðið „fáviti“ um Trump.

Trump hefur verið sakaður um að grafa ítrekað undan Tillerson, meðal annars varðandi málefni Norður-Kóreu. Skömmu eftir að Tillerson hafði sagt fjölmiðlum að hann héldi samskiptum við stjórnvöld í Pjongjang opnum tísti Trump um að viðræður væru gagnslausar.

Forsetinn vildi ekki gangast við því í viðtalinu við Forbes.

„Ég er ekki að grafa undan. Ég held að ég sé í rauninni um að efla vald.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×