Erlent

Mál Kim Wall: Skoða hvort endurskapa eigi vettvanginn um borð í kafbátnum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Madsen neitar enn sök og segir Wall hafa látist af slysförum
Madsen neitar enn sök og segir Wall hafa látist af slysförum

Lögreglan í Danmörku er með það til athugunar hvort endurskapa eigi vettvanginn um borð í kafbáti Peter Madsen frá því þegar Kim Wall lést. Fyrst þurfi þó að afla frekari gagna svo að betri mynd verði til af atburðunum sem drógu Wall til dauða.

Þetta segir yfirmaður lögreglunnar í Kaupmannahöfn en lögmaður Madsen fór fram á það fyrir rétti í gær að lögregla myndi endurskapa vettvanginn.

„Það væri ekki gáfulegt af okkur að endurskapa vettvanginn aftur og aftur, því bíðum við eftir að við höfum allar þær upplýsingar sem skipta máli,“ sagði Jens Møller Jensen yfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu DR.

Madsen var í gær úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald. Fyrir rétti kynnti saksóknari krufningskýrslu á líki Wall þar sem kom fram að lík hennar hefði verið sagað í sundur með sög. Þar kom einnig fram að hún hefði verið stungin í brjóst og klof, eftir að hún lést.

Verjandi Madsen vill að lögregla endurskapi vettvanginn um borð í kafbátnum Nautilus.Vísir/AFP

Þá fundust einnig leifar af DNA úr Wall á hálsi og undir nöglum Madsen. Þá sagði saksóknarinn einnig að ofbeldisfull myndbönd þar sem meðal annars mátti sjá konur teknar af lífi, ýmist með því að vera hengdar eða brenndar, hafi fundist í tölvu Madsen.

Madsen neitar því að hafa verið valdur að dauða Wall. Hann segir að hún hafi látist af slysförum um borð í kafbátnum og hann hafi kastað líki hennar fyrir borð.

Lögregla segir að hún hafi ekki útilokað að einhver annar hafi átt hlut að máli, þrátt fyrir að öll spjót beinist að Madsen.

„Eins og sakir standa fór Peter Madsen í siglingu með Kim Wall að kvöldi til og hún átti ekki afturkvæmt. Hann hefur sjálfur játað að hún hafi látið lífið um borð. Spurningin sem þarf að svara er hvað dró hana til dauða,“ sagði Jensen.

Dánarorsök liggur enn ekki fyrir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×