Erlent

Forsætisráðherra Spánar útilokar ekki að svipta Katalóníu sjálfræði

Kjartan Kjartansson skrifar
Spænski fáninn var áberandi á mótmælum gegn sjálfstæði Katalóníu á Kólumbusartorgi í Madrid í gær.
Spænski fáninn var áberandi á mótmælum gegn sjálfstæði Katalóníu á Kólumbusartorgi í Madrid í gær. Vísir/AFP
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, útilokar ekki að beita ákvæðum stjórnarskrár landsins og svipta Katalóna sjálfræði ef stjórnmálaleiðtogar þeirra lýsa yfir sjálfstæði héraðsins.

Katalónía er eitt sautján sjálfstjórnarhéraða Spánar sem njóta meiri eða minni sjálfstjórnar. Stjórnvöld þar stóðu fyrir atkvæðagreiðslu um sjálfstæði um síðustu helgi sem stjórnlagadómstól Spánar úrskurðaði ólöglega. Lögreglumenn lokuðu fjölda kjörstaða og gengu hart fram kjósendum og kjörstjórnum.

Leiðtogar héraðsins hafa gefið í skyn að þeir muni lýsa yfir sjálfstæði, jafnvel strax í þessari viku.

Rajoy hefur völd til að leysa upp héraðsstjórnir og boða til nýrra kosninga þar samkvæmt stjórnarskránni. Fram að þessu hefur hann ekki tekið skýra afstöðu til þess hvort að hann muni neyta þess réttar, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

„Ég útiloka ekki algerlega neitt sem er innan marka laganna. Best væri að ekki þyrfti að vera nauðsynlegt að grípa til öfgafullra lausna en til að forðast það þyrftu hlutirnir að breytast mikið,“ segir Rajoy nú við spænska dagblaðið El País.

Tugir þúsunda Spánverja mótmæltu sjálfstæðistilburðum Katalóna á útifundum víða um land í gær. Hvöttu þeir leiðtoga lands og héraðs til að halda friðinn og leysa málin með viðræðum.

Carles Puigdemont, forseti héraðsstjórnar Katalóníu, hefur lýst sig opinn fyrir viðræðum við landsstjórnina en Rajoy hefur útilokað það þar til leiðtogar Katalóna gefa sjálfstæðishugmyndir sínar upp á bátinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×