Fótbolti

Heimir: Öll lið í heiminum myndu vilja vera með Aron Einar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tannlæknirinn frá Eyjum er á leiðinni til Rússlands
Tannlæknirinn frá Eyjum er á leiðinni til Rússlands Vísir/Anton
Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska landsliðsins, segir að framlag þeirra Arons Einars Gunnarssonar og Gylfa Þórs Sigurðssonar hafi verið gríðarlegt bæði í kvöld sem og í allri undankeppni HM 2018.

Ísland tryggði sér í kvöld sæti í lokakeppni HM 2018 í Rússlandi og varð þar með fámennasta þjóð heims til að gera það í sögu keppninnar.

Á löngum blaðamannafundi eftir leikinn lagði bað Vísir Heimi um að leggja mat sit á frammistöðu Gylfa Þórs og Arons Einars sérstaklega, í ljósi þess hversu mikilvægir þeir hafa verið íslenska liðinu undanfarin ár.

„Það skal ég glaður gera,“ sagði Heimir. „Ef við tökum Gylfa fyrst þá er hann leikmaður sem er einn af okkar mest áberandi leikmönnum. Hann er sá leikmaður sem skorar mikið og leggur upp mörg mörk. Hann er í þeirri stöðu að fá sem mesta athygli.“

„Svoleiðis leikmenn eru oft lúxusleikmenn. En Gylfi er sennilega einn duglegasti maðurinn í liðinu og leggur sig einna mest fram af öllum leikmönnum. Þegar þú ert með svona lúxusleikmann - hver getur leyft sér að vera latur? Hann endurspeglar allt það sem við viljum að leikmenn okkar hafi - hann hefur ef til vill meiri gæði en aðrir en hann er ekki síðri á öðrum sviðum.“

Heimir sneri sér því næst að Aroni Einari, sem spilaði báða leikina í þessari landsliðstörn þrátt fyrir að hafa verið meiddur síðustu vikurnar og settur í erfiða stöðu af félagsliði sínu og þjálfara.

„Öll lið í heiminum myndu vilja vera með leikmann í sínum röðum sem fórnar öllu svo að liðið vinni sigra og næsti leikmaður fái tækifæri til að láta ljós sitt skína. Öll lið í heiminum myndu vilja hafa Aron Einar Gunnarsson í sínu liði. Hann er tilbúinn að setja takkana í andlitið svo að næsti maður geti skorað mark eða fengið fyrirsögnina.“

„Hann er svo hreinn og tær hvað liðsheildina varðar, bæði í hjarta sínu og aðgerðum. Lið keppast um að fá svona leikmenn en við eigum marga svona menn - ekki bara Aron Einar. Það er það sem gerir lið okkar betri en mörg önnur lið. Við eigum fullt af leikmönnum sem eru tilbúnir að leggja allt á sig þó svo að þeir fái ekki sviðsljósið. Ef þú hugsar um Jón Daða, Birki Bjarnason og fleiri - þetta eru vinnudýr sem leggja allt á sig fyrir liðsheildina.“

„Það er þetta hugarfar sem gerir Aron Einar að ekki bara einstökum leikmanni, heldur einstakri persónu.“


Tengdar fréttir

Alfreð: Þetta var klárlega sterkasti riðillinn

"Hún er ólýsanleg, EM var sætt en þetta er sætara og stærra. Það er erfitt að koma þessu í orð,“ sagði Alfreið Finnbogason framherji íslenska landsliðsins þegar hann var spurður hvernig tilfinningin hefði verið þegar flautað var af í leiknum gegn Kosóvó í kvöld.

Aron Einar: Orð fá þessu ekki lýst

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, segir að orð fái þessu ekki lýst að liðið sé búið að tryggja sig inn á HM. Hann segir að fögnuðurinn hafi verið meiri nú en þegar liðið tryggði sig á EM.

Birkir: Kannski var fínt að fá skellinn

„Að komast í gegnum þennan riðil og komast beint á HM er ótrúlegt. Þetta eru þrjú heimsklassa lið sem við vinnum,“ sagði Birkir Bjarnason eftir að Ísland tryggði sér sæti á HM í Rússlandi á næsta ári.

Heimir: Hrikalega stoltur

Landsliðsþjálfarinn hugsaði bara í tilfinningum og átti erfitt með að finna orð til að lýsa augnablikinu þegar íslenska landsliðið tryggði sig í lokakeppni HM í Rússlandi næsta sumar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×