Fótbolti

Birkir: Kannski var fínt að fá skellinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Birkir Bjarnason í leiknum í kvöld
Birkir Bjarnason í leiknum í kvöld vísir/eyþór
„Að komast í gegnum þennan riðil og komast beint á HM er ótrúlegt. Þetta eru þrjú heimsklassa lið sem við vinnum,“ sagði Birkir Bjarnason eftir að Ísland tryggði sér sæti á HM í Rússlandi á næsta ári.

„Þetta er náttúrlega HM,“ svaraði Birkir þegar blaðamaður bar hann að bera saman afrekin tvö, að komast á EM og HM.

„Sérstaklega í þessum riðli er þetta mikið stærra. Þetta verður rosalegt í Rússlandi,“ bætti hann við.

Birkir skoraði glæsilegt mark í sigrinum magnaða gegn Tyrkjum á föstudag en sagði að það hefði ekki verið neitt mál að halda sér á jörðinni þrátt fyrir mikla umfjöllun um góða stöðu liðsins.

„Innan hópsins vorum við rólegir og vissum auðvitað að við þurftum að klára þennan leik. Við mættum spenntir og klárir en vel einbeittir.“

Eftir tapið gegn Finnum í september hefur íslenska liðið unnið þrjá leiki með markatölunni 7-0. Vonbrigðin eftir þann leik voru mikil en hjálpaði það liðinu í undirbúningi fyrir lokaleikina?

„Hver veit? Við skulum ekki taka neitt frá Finnum því þeir hafa sýnt að þeir eru með mjög gott lið. Kannski var fínt að fá skellinn og láta það rífa okkur í gang sem við gerðum,“ sagði Birkir að lokum áður en hann hélt í fögnuðinn á Ingólfstorgi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×