Fótbolti

Heimir: Hrikalega stoltur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson átti erfitt með að finna orð til að lýsa augnablikinu þegar Ísland komst í lokakeppni HM með sigri á Kósóvó í kvöld.

„Nú hugsar maður bara í tilfinningum, ekkert endilega með hausnum. Ég er fyrst og fremst bara stoltur, stoltur af strákunum. Við erum búnir að hrósa þeim fyrir liðsheild og samheildni núna í þessu verkefni. Sérstaklega staffið sem er í kringum liðið, og svo bara ef við tökum þetta ennþá lengra, í stuðningsmennina okkar sem eru búnir að vera geggjaðir,“ sagði Heimir við Tómas Þór Þórðarson á Laugardalsvelli.

„Ótrúlega stolt að vera hluti af þessum geggjaða hópi sem er að afreka eitthvað sem við skiljum ekki alveg hvað er stórt.“

„Maður segir örugglega bara bölvaða þvælu þegar maður hugsar í tilfinningum, en það er bara aðallega það, ég er ótrúlega stoltur,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Ísland var í ógnarsterkum riðli, að koma af Evrópumótinu með stórar breytingar, þar helst að Lars Lagerbeck var hættur með liðið. Hvað hugsaði Heimir þegar hann sá dráttinn?

„Ég vissi þetta yrði erfitt. Þegar við vorum að svekkja okkur yfir því hversu erfitt þetta yrði. Eini riðillinn með fjórum liðum sem voru í lokakeppninni [Evrópumótsins] og að vera með Finnum og Kósóvó sem eru í neðsta styrkleikaflokki af því þeir eru nýtt lið.“

„Við vorum óheppnir með riðil. Það er alltaf erfitt að byrja aftur eftir velgengni og leikmenn virkilega náðu sér ekki á strik með sínum félagsliðum, þannig að við vorum í basli, en náðum samt úrslitum.“

„Ég var alveg viss um að þetta ár yrði betra heldur en í fyrra, afþví við komumst í gegnum þetta ár. Við missum Kolbein Sigþórsson, sem var okkar aðal markaskorari, en strákarnir hafa stigið yfir hvern einasta þröskuld sem hefur staðið í vegi okkar á þessari leið og ég er bara hrikalega stoltur,“ sagði landsliðsþjálfari Íslands, Heimir Hallgrímsson.


Tengdar fréttir

Aron Einar: Orð fá þessu ekki lýst

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, segir að orð fái þessu ekki lýst að liðið sé búið að tryggja sig inn á HM. Hann segir að fögnuðurinn hafi verið meiri nú en þegar liðið tryggði sig á EM.

Hannes: Hélt þetta tækifæri kæmi ekki aftur

Hannes Þór Halldórsson var að vonum kátur eftir sigur Íslands á Kósóvó í kvöld. Hann hélt eftir tapið í umspilinu gegn Króatíu fyrir fjórum árum að Ísland fengi aldrei annað tækifæri til þess að komast á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×