Erlent

Mikil spenna á Spáni

Samúel Karl Ólason skrifar
Katalónía er tiltölulega ríkt svæði í norðausturhluta Spánar með eigið tungumál og menningu.
Katalónía er tiltölulega ríkt svæði í norðausturhluta Spánar með eigið tungumál og menningu. Vísir/EPA
Þúsundir manna ganga nú um götur Madrídar, og annarra borga Spánar, veifa spænska fánanum og kalla eftir því að Katalónía verði áfram hluti af Spáni. Jafnvel er kallað eftir því að Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, verði fangelsaður. Mikil spenna er nú á Spáni en íbúar Katalóníu munu kjósa um sjálfstæði á morgun.



Yfirvöld Spánar segja atkvæðagreiðsluna vera ólöglega og er lögreglan búin að loka um 1.300 af þeim 2.315 skólum sem eiga að vera kjörstaðir. Stuðningsmenn atkvæðagreiðslunnar halda þó enn til í mörgum skólum og neita að yfirgefa þá.

Katalónía er tiltölulega ríkt svæði í norðausturhluta Spánar með eigið tungumál og menningu. Þar búa um 7,5 milljónir manna. Héraðið nýtur mikils frelsis en er ekki sjálfstætt ríki undir stjórnarskrá Spánar.

Stjórnvöld hafa sent þúsundir lögregluþjóna til Katalóníu til að loka umræddum skólum og jafnvel leggja hald á kjörseðla og margt fleira. Þá hafa skipanir verið gefnar um að loka vefsvæðum sem tengjast atkvæðagreiðslunni.



Í Barcelona ganga fjölmargir um götur borgarinnar og veifa fána Katalóníu, samkvæmt frétt Reuters.



Þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda Spánar segir Puigdemont að atkvæðagreiðslan muni fara fram.


Tengdar fréttir

Rajoy ósáttur við áform Katalóna

Fyrirhuguð atkvæðagreiðsla Katalóna um sjálfstæði frá Spáni, sem á að fara fram 1. október næstkomandi, er ólögleg. Þessari skoðun lýsti Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, í gær. Sagðist hann jafnframt ætla að biðja dómstóla um að fella lögin um að halda skuli atkvæðagreiðsluna úr gildi.

Spenna vex í Katalóníu

Katalónar greiða atkvæði á sunnudag um hvort þeir eigi að lýsa yfir sjálfstæði. Forseti héraðsins segir stjórnvöld í Madríd koma fram við þá sem ógn við þjóðaröryggi.

Vilja svipta Katalóníu fjárræði

Yfirvöld í Katalóníuhéraði á Spáni hafa frest þangað til á sunnudag til að hætta við fyrirhugaða atkvæðagreiðslu um sjálfstæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×