Erlent

Meirihluti kýs að öllum líkindum sjálfstæði

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Dráttarvélalest ók inn í Barcelona til þess að hvetja borgara til þess að kjósa.
Dráttarvélalest ók inn í Barcelona til þess að hvetja borgara til þess að kjósa. Nordicphotos/AFP
Nærri öruggt þykir að meirihluti kjósenda muni greiða atkvæði með því að lýsa yfir sjálfstæði þegar Katalónar ganga til kosninga á morgun.

Er það vegna þess að flokkar sem andvígir eru sjálfstæði, og hafa um fjörutíu prósent þingsæta, hafa hvatt stuðningsmenn sína til að sniðganga kosningarnar.

Lítið er um skoðanakannanir í málinu en sú nýjasta sem Fréttablaðið fann birtist á katalónsku fréttasíðunni Ara þann 16. september síðastliðinn. Sögðust 44,1 prósent vilja sjálfstæði en 38,1 prósent ekki.

Spánverjar hafa ítrekað lýst því yfir að kosningar morgundagsins séu ólöglegar og verða niðurstöður kosninganna því ekki virtar.

Jafnframt hafa Spánverjar sent þúsundir lögreglumanna til Katalóníu og hefur lögreglu verið skipað að gera öll kjörgögn upptæk.

Katalónar halda hins vegar ótrauðir áfram og reyna sjálfstæðissinnar að verja kosningarnar.

Til að mynda keyrði dráttarvélalest inn í höfuðborgina Barcelona í gær og veifuðu bændurnir sem óku vélunum kjörseðlum og fána Katalóníu til þess að hvetja fólk til þess að mæta á kjörstað.

Bændurnir ætla sér að leggja dráttarvélum sínum fyrir utan kjörstaði víðs vegar um borgina á morgun. Hyggjast þeir gera það í þeim tilgangi að hindra aðgerðir lögreglu svo hún geti ekki gert kjörgögn upptæk.

Í ljósi sniðgöngu sambandssinna og aðgerða lögreglu má búast við því að kjörsókn verði dræm en, eins og áður segir, stórsigri sjálfstæðissinna.

Samkvæmt katalónskum lögum er yfirvöldum héraðsins heimilt að lýsa yfir sjálfstæði allt að 48 klukkustundum eftir að niðurstöður kosninganna koma í ljós.

Carles Puidgemont, forseti Katalóníu, sagði við BBC að ekki væri útilokað að sjálfstæði yrði ekki lýst yfir. „Ef til vill reynum við að setjast niður með spænsku ríkisstjórninni.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×