Innlent

Almenningi ekki leyft að nota nýjustu jarðgöngin

Kristján Már Unnarsson skrifar
Nýjustu jarðgöng landsins, göngin undir Húsavíkurhöfða, eru nú tilbúin til notkunar. Þetta verða fyrstu bílagöng Vegagerðarinnar sem almennum vegfarendum verður ekki leyft að nota. Myndir af göngunum voru sýndar í fréttum Stöðvar 2 og rætt við Snæbjörn Sigurðarson, verkefnastjóra hjá Norðurþingi.

Þetta þótti besta og öruggasta lausnin til að tengja iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavíkurhöfn, að grafa 940 metra löng jarðgöng í gegnum Húsavíkurhöfða, en jafnframt voru lagðir um tveggja kílómetra langir vegir.

Horft frá gangamunna til norðurs í átt að Bakka.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Og núna eru göngin tilbúin, eftir tveggja ára vinnu, fyrir utan smávægilegan frágang við rafmagn og lýsingu, og gert ráð fyrir að þau verði formlega afhent um mánaðamótin september október, að sögn Snæbjörns. 

Vegagerðin samdi við lægstbjóðanda, norska verktakann Leonhard Nilsen & Sønner, um verkið. Kostnaður greiðist úr ríkissjóði, samtals um 3,6 milljarðar króna, en viðbótarkostnaður nam um 300 milljónum króna og verðbætur um 150 milljónum.

Gangamunninn Húsavíkurmegin.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Snæbjörn segir verkið hafa heppnast vel og ekkert stórt óvænt hafi komið upp. Jarðgöngin verða hins vegar ekki opin almenningi. 

„Nei. Þessi göng eru sérstaklega byggð fyrir iðnaðarumferð milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka. Og þegar þú kemur í gegnum göngin inn á hafnarsvæðið þá ertu í raun kominn inn á öryggissvæði, eða hafnarverndarsvæði, þannig að hér má enginn fara nema hafa til þess heimild frá hafnaryfirvöldum,” segir Snæbjörn.

Hér sést hvernig jarðgöngin tengjast Húsavíkurhöfn. Gangamunninn sést vinstra megin.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Það er mikil synd að göngin og nýi vegurinn skuli eingöngu vera fyrir iðnaðarsvæðið og ekki ætluð almenningi því með þeim opnast greið leið að fagurri strandlengju. Húsvíkingar, nærsveitarmenn og aðrir munu því ekki geta skroppið í gegn á kvöld- eða helgarrúntinum. 

Snæbjörn Sigurðarson, verkefnastjóri Norðurþings.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
„Nei, því miður verður ekki hægt að fara þarna í gegn svona á rúntinum. En við ætlum svona að reyna að hleypa einhverri umferð á göngin svona áður en þau opna, bara svo að menn fái svona að máta sig við þetta.

En eftir það er ég bara hræddur um að menn verði að vera í vinnunni og í vinnubíl ef menn ætla að fá að fara þarna í gegn,” segir verkefnastjóri Norðurþings.

 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.