Enski boltinn

Magnaður september hjá Harry Kane

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane fékk að sjálfsögðu að eiga boltann eftir þrennuna í gærkvöldi.
Harry Kane fékk að sjálfsögðu að eiga boltann eftir þrennuna í gærkvöldi. Vísir/Getty
Tottenham leikmaðurinn Harry Kane hefur raðað inn mörkum að undanförnu og hann var með þrennu í sigri á Apoel Nicosia í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Harry Kane hefur þar með skorað 5 mörk í fyrstu tveimur Meistaradeildarleikjum Tottenham í ár og alls 9 mörk í 5 leikjum í septembermánuði eftir að honum tókst ekki að skora í þremur leikjum í ágúst.



Kane hefur ennfremur skorað í síðustu fjórum Meistaradeildarleikjum sínum því hann skoraði í síðustu tveimur leikjum Spurs í Meistaradeildinni í fyrra. Kane er samtals með 7 mörk í 5 leikjum í Meistaradeildinni á ferlinum.

Kane skoraði hina svokölluðu fullkomnu þrennu í gær eða eitt mark með vinstri, eitt með hægri og loks eitt með skalla. Hann varð sjöundi Englendingurinn til að skora þrennu í Meistaradeildinni á eftir þeim Andy Cole, Mike Newell, Michael Owen, Wayne Rooney, Alan Shearer og Danny Welbeck.

Ágúst er í raun eini slæmi mánuður Kane á árinu 2017 þar sem enski landsliðsframherjinn hefur skorað 34 mörk í 30 keppnisleikjum Tottenham. Enginn annar leikmaður í ensku úrvalsdeildinni hefur skorað meira á þessu ári.



Kane hefur einnig skorað tvö mörk fyrir enska landsliðið í undankeppni HM í haust. Það voru einmitt mörkin hans á móti Möltu sem kveiktu í kappanum 1. september.

Alls hefur Harry Kane spilað sjö leiki í öllum keppnum með Tottenham og enska landsliðinu í þessum mánuði og hann hefur verið með tvö mörk eða fleiri í fimm þeirra. Alls eru þetta 11 mörk í 7 leikjum í september 2017.  

Það er ekki nóg með að Kane hafi skorað þessi 34 mörk heldur var þetta sjötta þrennan hans á árinu í gær. Sex af níu þrennum hans á ferlinum hafa þar með komið á árinu 2017.

Leikir Harry Kane í september 2017 - með Tottenham og Englandi

4-1 sigur á Möltu í undankeppni HM - 2 mörk

2-1 sigur á Slóvakíu í undankeppni HM - 0 mörk

3-0 sigur á Everton í ensku deildinni - 2 mörk

3-1 sigur á Dortmund í Meistaradeildinni - 2 mörk

0-0 jafntefli við Swansea í ensku deildinni - 0 mörk

3-2 sigur á West Ham í ensku deildinni - 2 mörk

3-0 sigur á Apoel í Meistaradeildinni - 3 mörk






Fleiri fréttir

Sjá meira


×