Erlent

Segja að Trump vilji nema áætlun sem ver börn ólöglegra innflytjenda úr gildi

Atli Ísleifsson skrifar
Í kosningabaráttunni tók Donald Trump harkalega afstöðu í innflytjendamálum.
Í kosningabaráttunni tók Donald Trump harkalega afstöðu í innflytjendamálum. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að nema úr gildi áætlun sem tryggir réttindi barna óskráðra innflytjenda í Bandaríkjunum. Frá þessu greina bandarískir fjölmiðlar í dag.

Forsetinn hyggst gefa þinginu sex mánuði til að smíða nýja löggjöf til að koma í stað DACA-löggjafarinnar svokölluðu sem tók gildi árið 2012.

DACA var samþykkt í forsetatíð Barack Obama Bandaríkjaforseta og ver hún hundruð þúsunda frá því að verða vísað úr landi og veitir þeim réttindi til að starfa og stunda nám í Bandaríkjunum.

Í frétt Politico segir að um málamiðlun sé að ræða, en DACA nýtur mikils stuðnings meðal þingmanna. Segja heimildarmenn Politico að forsetanum kunni enn að snúast hugur, en hann mun greina frá ákvörðun sinni á morgun.

Paul Ryan, leiðtoga Repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, var greint frá ákvörðun forsetans í gærmorgun. Ryan hefur áður hvatt forsetann til að láta það vera að nema löggjöfina úr gildi þar sem margir myndu standa frammi fyrir mikill óvissu. „Þetta eru krakkar sem þekkja ekkert annað land, komu hingað með foreldrum sínum og þekkja ekkert annað heimili,“ sagði Ryan.

Í kosningabaráttunni tók Trump harkalega afstöðu í innflytjendamálum og sagðist ætla að nema DACA úr gildi við fyrsta tækifæri. Eftir að hann tók við embætti hefur hann sagt málið „mjög, mjög erfitt“.

Bæði þingmenn úr röðum Repúblikana og Demókrata hafa hvatt forsetann til að hætta við áform um að afnema DACA. Þannig tísti Bernie Sanders, öldungadeildarþingmaður Demókrata, að það yrði einhver ljótasta og grimmasta ákvörðun í sögunni ef Trump myndi láta verða af því að nema löggjöfina úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×