Erlent

Suu Kyi segir stjórn Búrma reyna að verja alla þegna sína

Kjartan Kjartansson skrifar
Lög Búrma koma í veg fyrir að Suu Kyi geti gegnt embætti forseta. Hún er utanríkisráðherra en er talin raunverulegur leiðtogi ríkisstjórnar landsins.
Lög Búrma koma í veg fyrir að Suu Kyi geti gegnt embætti forseta. Hún er utanríkisráðherra en er talin raunverulegur leiðtogi ríkisstjórnar landsins. Vísir/AFP
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Búrma, segir að ríkisstjórn hennar geri sitt besta til þess að verja alla borgara landsins í Rakhine-héraði þar sem á annað hundruð þúsund rohingjamúslima hafa flúið ofsóknir.

Samfélag rohingja í Rakhine-héraði hefur sótt ofsóknum hersins eftir að uppreisnarmenn gerðu árás á herstöð 25. ágúst. Hermenn eru sakaðir um að brenna þorp, myrða íbúa og nauðga konum.

Alls hafa nú 164.000 manns flúið ofsóknirnar yfir landamærin til Bangladess. Margir Búrmamenn líta á rohingjafólkið sem ólöglega innflytjendur frá Bangladess.

Minntist ekki beint á flótta rohingja

Suu Kyi hefur sætt harðri gagnrýni á vesturlöndum fyrir að koma rohingjafólkinu ekki til varnar. Sumir hafa jafnvel kallað eftir því að hún verði svipt friðarverðlaunum Nóbels sem hún hlaut árið 1991.

Í dag tjáði hún sig loks um ástandið í Rakhine en minntist ekki beint á fólksflótta rohingja þaðan, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

„Við verðum að hugsa um alla borgara okkar, við verðum að annast alla sem eru í landinu okkar, hvort sem þeir eru borgarar okkar eða ekki,“ sagði Suu Kyi.

Kenndi hún hryðjuverkamönnum um að dreifa miklu magni misvísandi upplýsinga um átökin í Rakhine.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×